lock search attention facebook home linkedin twittter

13 nóv 2015

Verð­bólguspá Capacent fyrir nóvember

Verðbólgan við verðbólgumarkmið í nóvember

Verðbólgan í 2,5% og við verðbólgumarkmið
Ef spá Capacent gengur eftir um 0,2% hækkun vísitölu neysluverðs (vnv) í nóvember mun verðbólgan hækka úr 1,8% í 2,5%. Í nóvember í fyrra lækkaði vnv óvænt um hálft prósentustig og endurspeglar mikil hækkun verðbólgu nú fremur þá lækkun en að verðbólguhraðinn sé að aukast.
Olíuverð hefur haldist stöðugt en gengi krónunnar hefur veikst um 5% gagnvart bandaríkjadal
Gengi krónu styrktist samfellt frá maí fram í miðjan október. Síðastliðnar 4 vikur hefur vísitala krónunnar veikst lítillega eða um 1%. Hins vegar hefur gengi krónu veikst mun meira gagnvart bandaríkjadal eða um 5%.  Áhrif veikingarinnar eru nær engin á verðlag nema eldsneytisverð sem er að mestu reiknað í bandaríkjadölum og breytist ótt og títt. Olíuverð hefur að mestu verið óbreytt síðustu tvo mánuði en vegna gengisveikingar hefur eldsneytisverð hækkað um 1 til 2%. Áhrif hærra eldsneytisverðs hefur um 0,05% áhrif á vnv til hækkunar.
Enn mikil velta á fasteignamarkaði en hefur þó dregist saman síðustu vikur
Í síðasta mánuði hækkaði fasteignaverð í vnv um 1,2% en mjög mikil velta hafði verið á fasteignamarkaði vikurnar á undan. Dregið hefur úr veltunni en útlit er þó fyrir mikla veltu og hækkanir á fasteignamarkaði næstu mánuði. Samkvæmt Peningamálum Seðlabanka hafa ekki fleiri heimili séð fram á húsnæðiskaup síðan 2007.  Capacent gerir ráð fyrir um 0,9% hækkun fasteignaliðs í vnv og lítilsháttar hækkun á leiguverði.  Hækkun fasteignaverðs og leiguverðs hefur 0,15% áhrif á vnv til hækkunar skv spá.  
Lækkun á grænmeti en að öðru leyti litlar breytingar á matvælaverði
Er vetur gengur í garð tæmast hillur verslana af innlendu grænmeti og innflutt grænmeti kemur af vaxandi þunga í matvörubúðir. Innflutt grænmeti er nokkuð ódýrara og er því reglubundin lækkun á grænmetisverði á þessum árstíma. Capacent gerir ráð fyrir að í heildina lækki matvælaverð og hefur lækkun á matvælaverði um 0,03% áhrif á vnv til lækkunar.
Óvissuþátturinn – Hvað gera flugfargjöldin?
Samkvæmt könnun Capacent stendur verð flugmiða að mestu í stað á milli október og nóvember. Sögulega hafa verið nokkrar hækkanir á flugfargjöldum í upphafi aðventunnar enda borgarferðir vinsælar á þeim tíma. Capacent gerir ráð fyrir smávægilegri hækkun og munu áhrifin á vnv vera 0,05% til hækkunar.
Hækkandi verð trygginga og þjónustu
Gert er ráð fyrir óbreyttu verði fatnaðar í nóvember en líklegt er að afnám tolla á fatnaði komi fram í lægra verði fatnaðar í desember og janúar. Ýmsir smáir þjónustuþættir líkt og verð veitinga, trygginga og annarrar þjónustu hafa lítilsháttar áhrif á vnv til hækkunar eða 0,02%. Við gerum því ráð fyrir 0,24% hækkun vnv.
Verðbólguspá Capacent fyrir nóvember

Höfundur