lock search attention facebook home linkedin twittter

16 mar 2015

Verð­bólguspá Capacent fyrir mars

Fjármálaráðgjöf Capacent spáir rúmlega 0,6% hækkun vísitölu neysluverðs í mars. Á sama tíma fyrir ári síðan hækkaði vísitala neysluverðs um 0,2% og hækkar því ársverðbólgan úr 0,8% í 1,2%. Að þessu sinni eru ráðandi þættir í hækkun vísitölu neysluverðs; hækkanir í kjölfar útsöluloka, hækkun fasteignaverðs  og hækkun flutningskostnaðar vegna eldsneytisverðshækkunar.

Sveiflukenndir liðir ráða för: Hækkun vöruverðs vegna útsöluloka og hækkun flutningskostnaðar vegna eldsneytisverðshækkana er ekki vegna undirliggjandi verðbólguþrýstings. Annars vegar er um árstíðasveiflu um að ræða og hins vegar verðbreytingar á alþjóðamörkuðum.
Eðlileg leiðrétting eða eftirspurnarþensla? Mikil hækkun á raunvirði fasteigna ætti ekki að koma á óvart en raunverð fasteigna er enn nokkuð frá því sem það var á árunum fyrir bankahrun. Lítið hefur verið byggt og Íslendingum fjölgað um 10 þúsund frá árinu 2008. Erfitt er að fullyrða að hækkun fasteignaverðs nú sé til marks um mikla eftirspurnarþenslu. Vel má færa fyrir því rök að að hækkun fasteignaverðs nú sé leiðrétting.
Fjármálaráðgjöf Capacent gerir ráð fyrir 0,8% hækkun á fasteignaverði sem samsvarar um 10% nafnverðshækkunar á ársgrundvelli.  Ekki er gert ráð fyrir mikilli hækkun leiguverðs en leiguverð í vísitölu neysluverðs byggir að hluta á leigu í félagslegu húsnæði sem hækkaði töluvert um áramótin. Samtals leggur húsnæðisliðurinn 0,13% til hækkunar vísitölu.
Það sem fer upp kemur niður aftur – Lækkun olíuverðs um  10% frá mánaðamótum: Olíuverð hefur lækkað um 10% frá lokum febrúar. Gengi bandaríkjadals hefur hins vegar styrkst um rúmlega 5% á móti gengi íslensku krónunnar. Því eru frekar líkur á lækkun eldsneytisverðs á næstunni en hækkun. Áhrif hærra eldsneytisverðs koma fram í flutningskostnaði en fjármálaráðgjöf Capacent gerir ráð fyrir að aukinn flutningskostnaður hafi áhrif sem nemur 0,25% til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Rætur hækkunar flutningskostnaðar skiptast nær til helminga á milli bensíns og flugfargjalda.
Flugfargjöldin eru jókerinn í vísitölu neysluverðs: Lausleg könnun fjármálaráðgjafar bendir ekki til verulegra hækkana á flugfargjöldum. Flugfargjöldin eru eftir sem áður jókerinn í spá fjármálaráðgjafar Capacent.
Útsölulok: Vetrarútsölum lauk nú um mánaðamótin. Hækkun á verði fatnaðar, húsgagna raftækja og annarra vara vegna útsöluloka skila sér í 0,25% hækkun vísitöluneysluverðs. Aðrir liðir hafa lítil áhrif á vísitölu neysluverðs. Samtals gerir fjármálaráðgjöf ráð fyrir rúmlega 0,6% hækkun vísitölu neysluverðs eða  0,64% í mars.
Verðbólguspá Capacent fyrir mars 2015

Höfundur