lock search attention facebook home linkedin twittter

18 maí 2015

Verð­bólguspá Capacent fyrir maí

Fjármálaráðgjöf Capacent spáir 0,2% hækkun á vísitölu neysluverðs.

Litlar hækkanir á fasteignamarkaði…? Mæling vísitölu neysluverðs (vnv) í apríl var lítillega undir okkar áætlun en vísitalan hækkaði um 0,14% en fjármálaráðgjöf Capacent gerði ráð fyrir 0,28%. Megin orsakir voru að hækkun fasteigna- og bensínverðs voru mun minni en við höfðum gert ráð fyrir.

Engin velta á fasteignamarkaði.…Hversu marktæk verður mæling vísitölu í maí: Vegna verkfalls lögfræðinga hjá sýslumannsembættinu á höfuðborgarsvæðinu hefur engum kaupsamningum verið þinglýst frá 6. apríl. Í ljósi aðstæðna ætti lítil hækkun á fasteignamarkaði í síðasta mánuði ekki að koma á óvart. Sömuleiðis gerir fjármálaráðgjöf Capacent ráð fyrir lítilli hækkun fasteignaverðs í maí. Að vísu byggist mælingin á 3 mánaða tímabili en tæplega eru forsendur fyrir miklum verðbreytingum þegar engar eða litlar upplýsingar liggja fyrir um viðskipti á fasteignamarkaði yfir lengri tíma. Af framangreindum sökum mun Fasteignamat ríkisins treglega geta birt vísitölu fasteignaverðs í maí. Fjármálaráðgjöf Capacent gerir ráð fyrir að fasteignaliður vísitölu leggi 0,07% til hækkunar vnv og vegur leiguverð þar þungt. Lítil hækkun fasteignaverðs nú vegna verkfalls er þó skammgóður vermir enda frestast hækkun fasteignaverðs aðeins fram á sumar eða haust.

Frestun á hækkun ekki sama og lægri verðbólga: Miklar verðhækkanir voru á eldsneytisverði um miðjan síðasta mánuð. Við reiknuðum með að hækkunin kæmi inn að meiri þunga í síðasta mánuði en raun varð. Hækkun á eldsneytisverði nú verður því umtalsverð þótt verðskrárhækkanir olíufélaganna hafi verið litlar að undanförnu.  Samtals gerum við ráð fyrir eldsneytisverð hækki um 2% og leggi til um 0,08% til hækkunar vnv.

Lognið á undan storminum? Að öllu jöfnu er maímánuður fremur tíðindalítill mánuður enda flestum verðskrárhækkunum lokið eftir áramót og enn nokkuð í að sumarútsölur byrji.  Að þessu sinni bætist svo við óvissa vegna kjarasamninga og því ólíklegt að miklar verðbreytingar verði fyrr en niðurstaða kjarasamninga liggur fyrir. Aðrir liðir en fasteignaverð og eldsneytisverð munu leggja til um 0,05% til hækkunar vnv og spáir fjármálaráðgjöf Capacent því 0,2% hækkun vnv. Verðbólgan á ársgrunni verður því 1,6% í maí og enn vel undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans.
Verðbólguspá Capacent fyrir maí 2015

Höfundur