lock search attention facebook home linkedin twittter

11 jún 2015

Verð­bólguspá Capacent fyrir júní

Fjármálaráðgjöf Capacent spáir 0,3% hækkun vísitölu neysluverðs í júní.

Verðbólgan óbreytt á ársgrundvelli
Ef verðbólguspá fjármálaráðgjafar Capacent um 0,3% hækkun vísitölu neysluverðs (vnv) í júní gengur eftir mun verðbólgan á ársgrundvelli fara í 1,6% og lóna áfram undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka.
Verkfallið hefur áhrif á verðbólgu
Áhrif verkfalls virðast ekki aðeins koma fram í húsnæðislið vísitölunnar en verð á kjöti hækkaði um 2% í maí og telur fjármálaráðgjöf útlit fyrir hækkun aftur í júní.  Grænmeti hækkar gjarnan á sumrin er innlent grænmeti kemur á markaðinn. Grænmeti hækkaði um 4% í maí og gerum við ráð fyrir áframhaldandi hækkun í júní.  Samtals gerum við ráð fyrir að hækkun matvælaverðs í júní muni hafa áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar sem nemur 0,06%.
Rólegt á eldsneytismarkarði
Eldsneytisverð hefur verið fremur stöðugt á heimsmarkaði síðan í byrjun maí og gengi krónunnar haldist fremur stöðugt gagnvart bandaríkjadal. Bensínverð hefur hækkað um tæplega 1% síðan um miðjan maí og díselolía lækkað um rúmlega 1%. Vægi bensíns í vnv er þrefalt meira en díselolíu og gerir fjármálaráðgjöf ráð fyrir 0,5% hækkun eldsneytisverðs sem  hefur um 0,02% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar.
Kerfisbundin hækkun á flugfargjöldum og gistingu
Á háannatíma ferðaþjónustunnar er verð flugfargjalda og gistingu hvað hæst. Samkvæmt könnun fjármálaráðgjafar hefur verð flugfargjalda hækkað samfara aukinni eftirspurn. Samtals gerum við ráð fyrir um 10% hækkun sem hefur áhrif á vísitölu neysluverð til hækkunar sem nemur 0,16%. Framangreindur liður er fremur óútreiknanlegur en verð flugfargjalda hækkaði um 12% á sama tíma árið 2014 og 10% árið 2013. Fjármálaráðgjöf gerir ráð fyrir um 10% hækkun á verði gistingar. Framangreind hækkun hefur 0,04% áhrif til hækkunar vnv.
Fasteignaverð stendur nær í stað vegna verkfalls: Þar sem engum kaupsamningum né leigusamningum hefur verið þinglýst á höfuðborgarsvæðinu eru áhrif liðarins á vísitölu neysluverðs óveruleg. Fasteignaverð ásamt öðrum smærri liðum leggja 0,05% til hækkunar vnv en samkvæmt mælingu fjármálaráðgjafar hækkar vnv um 0,33 og spáum við því 0,3% hækkun vnv í júní.
Verðbólguspá Capacent fyrir júní 2015

Höfundur