lock search attention facebook home linkedin twittter

27 júl 2015

Verð­bólguspá Capacent fyrir júlí

Fjármálaráðgjöf Capacent spáir 0,1% lækkun vísitölu neysluverðs í júlí.

Ef verðbólguspá fjármálaráðgjafar Capacent um 0,1% lækkun vísitölu neysluverðs (vnv) í júlí gengur eftir mun verðbólgan á ársgrundvelli hækka úr 1,5% í júní í 1,6% í júlí. Ef ekki verður verðbólguskot nú í júlí hefur verðbólgan verið samfellt í 18 mánuði undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Verðbólgan var síðast yfir verðbólgumarkmiði í janúar 2014.
Fortíðin er ekki besta spáin um framtíðina
Loks er farið að þinglýsa samningum um fasteignakaup á höfuðborgarsvæðinu og því farið að skrá verð á fasteignamarkaði aftur. Nokkur óvissa er um hvaða áhrif það mun hafa á fasteignalið vnv en skv. upplýsingum  fjármálaráðgjafar voru töluverðar hækkanir á fasteignamarkaði í vor sem koma ekki inn í vnv fyrr en nú. Af þeim sökum gerum við ráð fyrir töluverðri hækkun fasteignaverðs í júlí eða rúmlega 1% sem mun hafa 0,15% áhrif á vnv til hækkunar.
Kjarasamningar hafa áhrif
Vegna nýgerðra kjarasamninga gerir fjármálaráðgjöf ráð fyrir að matvælaverð og þjónusta hækki en samanlögð áhrif þessa á vnv til hækkunar er 0,09%.
Góðæri hjá sælgætisgrísum
Síðastliðna 12 mánuði hefur matvælaverð í vnv hækkað um 2,75%.  Hækkunin hefur þó verið mjög misjöfn milli einstakra undirflokka, t.d. hefur verð ávaxta hækkað um 13,0% og fiskverð hækkað um 9,2%. Verð á sælgæti hefur hins vegar lækkað um 5,4% og verð gosdrykkja lækkað um 3,8% en sjá má breytingar á verði einstakra flokka matvæla á mynd hér til hægri.
Sumarútsölur eru byrjaðar
Hinar árlegu sumarútsölur eru stærsti áhrifaþáttur á vnv í júlí. Gert er ráð fyrir að umfang útsala í ár verði svipað og í fyrra. Þyngst vega fataútsölur en áhrif útsala til lækkunar vnv eru metin tæplega 0,6% í spá.
Á Spáni er gott að djamma og djúsa – Verð flugfargjalda í hámarki
Samkvæmt könnun fjármálaráðgjafar hefur verð flugfargjalda hækkað um 15% milli júní og júlí. Verð flugfargjalda hækkaði um 14,2% á sama tíma í fyrra og kemur hækkunin því ekki á óvart. Áhrif hækkunar flugfargjalda á vnv nemur 0,24%.
Verðbólguspá Capacent fyrir júlí 2015

Höfundur