lock search attention facebook home linkedin twittter

10 maí 2015

Stefnu­mótun fyrr og nú

Mótun stefnu hefur alltaf verið mikilvæg en vægið hefur vaxið hin síðari ár. Aukinn áhugi á gildi þess að móta stefnu til framtíðar hefur haldist í hendur við breytingar í viðskiptaumhverfinu. Hér áður og fyrr var flest einfaldara og stöðugra.

Greinar

Heimurinn var meira hólfaður niður og allar breytingar tóku langan tíma. Allt umhverfi var í föstum skorðum og rótgróin fyrirtæki voru bara það; rótgróin. Og stundum mosavaxin. Bátnum var sjaldan ruggað með „óþarfa“ vangaveltum um stefnu og framtíð. Stefnan var nánast meitluð í stein og framtíðin var spegilmynd fortíðar eða í besta falli nútímans. Um leið var hafta- og molbúahugsunarháttur áberandi. Fyrirtæki gættu þess að stugga ekki við keppinautum gegn því að aðrir þvældust ekki inn á þeirra eigið svæði. Þessi samtrygging á markaði þýddi að tæplega var þörf á sérstakri stefnumótun. Stöðugleiki og breytingarleysi var lífssýn margra stjórnenda. Þægilegur tími fyrir suma, en að sama skapi óspennandi fyrir fólk með metnað til sköpunar og þróunar. Ávísun á stöðnun.

Í dag er umhverfið gjörbreytt. Heimurinn hefur á margan hátt skroppið saman og um leið orðið aðgengilegri. Aðgengi að mörkuðum er orðið auðveldara. Netið hefur klippt í burtu fjarlægðir í samskiptum og auðveldað þekkingaröflun. Inn í fyrirtækin hefur komið fólk sem hugsar á öðrum nótum en starfsmenn fyrri tíma. Einstaklingar, sem buðu stöðnun og höftum birginn og sprengdu upp afdönkuð stjórnkerfi og úrelta starfshætti fyrirtækja. Þetta þýddi oft á tíðum skemmtilegri tíma fyrir flesta, en um leið urðu þeir að mörgu leyti erfiðari. Skyndilega var þörf á að skoða markvisst ógnanir og tækifæri í nýju umhverfi, enda var slíkt nauðsynlegt ef fyrirtækið átti ekki að sitja eftir og missa af lestinni inn í nýja og breytta framtíð. Og skyndilega fengu hugtökin hlutverk, stefna, stefnumótun og framtíðarsýn aukið vægi. Að ekki sé minnst á markaðsmál. Nú skipti máli að hafa sterka sýn á stöðu fyrirtækis í bráð og lengd og taka um leið ákvarðanir um hvað ætti að gera. Og hvað ætti ekki að gera.

Þessi þróun hefur í raun orðið hérlendis á síðustu tuttugu árum eða svo. Fram undir 1990 var hugtakið stefnumótun nánast óþekkt í íslensku viðskiptalífi. Mörg önnur hugtök úr stjórnun voru reyndar líka lítt þekkt, svo sem upplýsingastefna, markaðsstefna og mannauðsstefna. Eðlilega var það misjafnt á milli markaða og einstakra fyrirtækja hversu vel stjórnendur höfðu tileinkað sér verkfæri í stjórnun en almennt var þetta frekar grunnt. Hér má einnig nefna að kreppan sem skall á 2008 dró í raun sterkar fram en áður nauðsyn þess að fyrirtæki hefðu skýra stefnu og framtíðarsýn, þar sem mikilvægara var en áður að hafa skarpa sýn á markað og það loforð sem átti að gefa. Enginn hafði efni á að eyða kröftum og orku í rangar áherslur.

Í dag er staða stefnumótunar því gjörbreytt. Íslenskir stjórnendur skilja að það skiptir miklu máli að hafa sýn á þá framtíð sem að er stefnt og hafa skilgreint þær stefnumarkandi áherslur sem eiga að færa fyrirtækið í þá átt. Á sama tíma leggja stjórnendur áherslu á að haga skipulagi og stjórnun í takti við stefnuna, og tryggja samstíga hóp starfsmanna til að vinna sem heild að framtíðarsýn fyrirtækisins.

Kjarni málsins er sá að mótun stefnu er mikilvægt og viðvarandi viðfangsefni fyrirtækja sem vilja styrkja samkeppnisstöðu sína á markaði og nálgast þá vinnu á markvissan hátt.

© Capacent/Þórður Sverrisson