lock search attention facebook home linkedin twittter

02 okt 2015

Skulda­bréfayf­irlit Capacent

Kætumst meðan kostur er: Óbreyttir vextir ýttu undir hækkun óverðtryggðra skuldabréfa og er ávöxtunarkrafa óverðtryggða ríkisbréfa að meðaltali 5,8%.  Þrátt fyrir að ávöxtunarkrafa ríkisbréfa liggi fremur þétt er þó nokkur misverðlagning í vaxtaferlinum. Bæði RIKB31 og RIKB19 standa nokkuð út úr.

RIKB19 næsta skammtíma bréfið

Líftími RIKB19 er of langur til að heilla fjárfesta sem sækjast eftir takmarkaðri fjárfestingaráhættu en ekki nógu langur til að vera spennandi kostur fyrir spákaupmenn. Verð RIKB31 er e.t.v. lágt m.t.t. skuldabréfa í kring en miðað við sögulega verðbólguþróun er ávöxtunarkrafan mjög lág. Þau 10 ára tímabil þar sem verðbólgan er undir 3% eru vandfundin.

Safngripir á útsöluverði

Íbúðabréfin eru e.t.v. jafn lummó og verðbréfamiðlari á fimmtugsaldri. Einnig eru þau í verulegri tilvistarkrísu. Nafnverð útgefinna íbúðabréfa hefur lækkað úr 682,4 ma.kr. í upphafi árs 2013 í 601,6 ma.kr. í lok ágúst. Íbúðabréf og verðbréfamiðlarar verða e.t.v. jafn kjánaleg og 10 króna seðill eftir 10 ár. Hins vegar verða íbúðabréfin ekki komin á gjalddaga.

Væntingar um verðbólgu sjaldan verið lægri:

Væntingar um verðbólgu til lengri tíma hafa sjaldan verið lægri eftir bankahrun, lágmarki náðu þær í desember síðastliðnum er þær voru 2,76%. Verðbólguvæntingar til 8 ára standa nú í rétt rúmlega 3% eða 3,03%. Jafn lágar verðbólguvæntingar til svo langs tíma eru athyglisverðar sértaklega í ljósi þeirrar áhættu sem fylgir því að fjárfesta óverðtryggt til svo langs tíma. Meðalverðbólga síðastliðin tíu ár er 5,9%. Líklegasta skýringin er að um hreina spákaupmennsku sé um að ræða og markaðsaðilar vænti að óverðtryggðir vextir til lengri tíma lækki enn meira.

Seðlabankinn fer eins og köttur í kringum heitan graut:

Er Seðlabankinn loksins farinn taka tillit til vaxtamunarviðskipta og verðbólguvæntinga?  Vísbendingar af skuldabréfamarkaði eru skýrar og hafa verið í nokkurn tíma, að spákaupmennska sé töluverð í íslenskum vöxtum. Seðlabankinn minnist ekki á það berum orðum en fjallar um gengisstyrkingu þrátt fyrir mikil gjaldeyriskaup. Háir vextir draga að erlent fjármagn þegar vaxtamunurinn er orðinn það hár að fjárfestar telja ábatann af því að fjárfesta í íslenskum vöxtum meiri en áhættuna.

Ofþensla í hagfræðigreiningu?

Athygli vakti viðsnúningur í skoðun verðstöðugleikavarða er vildu jafnvel hækka stýrivexti um 75 punkta síðast. Undrun vekur einnig túlkun Seðlabanka á væntingum en verðbólguvæntingar á markaði hafa verið með allra lægsta móti og lækkað hratt síðan í sumar. Væntingavísitala Gallup er einnig vel fyrir neðan þau gildi sem voru fyrir bankahrun þótt hún hafi aldrei verið jafn há eftir hrun.

Höfundur