lock search attention facebook home linkedin twittter

15 sep 2015

Skulda­bréfayf­irlit Capacent

Skuldabréfayfirlit með helstu tækifærum á markaði og umfjöllun um skuldabréfamarkað og peningamálastefnuna

Lesa má út væntingar um vaxtalækkun á skuldabréfamarkaði
Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra hefur lækkað um 160 punkta: Ávöxtunarkrafa langra óverðtryggðra skuldabréfa hefur lækkað um 160 punkta síðastliðna 3 mánuði eða um 1,6 prósentustig á sama tíma og Seðlabanki Íslands hefur hækkað vexti um 1 prósentustig.  Segja má að um nokkra öfugþróun sé um að ræða. Í þessu samhengi er athyglisvert að skoða lögun vaxtaferilsins en hann lýsir fremur væntingum um óbreytta stýrivexti eða lítilsháttar lækkun vaxta. Ávöxtunarkrafa til tæplega 1,5 árs er 6,18% en til tæplega 10 ára 5,87%.

Lækkun verðtryggðra vaxta hefur verið heldur minni
Lækkun verðtryggðra vaxta hefur verið heldur hófstemmdari en ávöxtunarkrafa verðtryggðra bréfa sem hefur lækkað um 16 til 31 punkt. Verðbólguálag hefur því lækkað verulega eða 130 punkta eða 1,3 prósentustig

Trúverðugleiki peningastefnunnar
Viðbrögð á vaxta- og skuldabréfamarkaði eru undarleg en að öllu jöfnu ættu vextir að hækka vegna væntinga um vaxtahækkanir og vaxtaferill að sýna væntingar um vaxtahækkanir. Þróun á skuldabréfamarkaði gæti bent til trúverðugleikabrests  peningastefnunnar.

Hann er að á fara ball og fæst ekki um gömlu partýtjónin
Skoðum margra er að vaxtastefna Seðlabankans fyrir bankahrun hafi kynt undir þenslu með hækkun vaxtamunar við útlönd og þannig hvatt til erlendrar lántöku og innstreymi fjármagns spákaupmanna. Hegðunarmynstrið og vísbendingarnar af markaði minna um margt á þá atburðarás sem hófst árið 2004. Ef þær vísbendingar eru á rökum reistar, bendir það til að við séum að fara í víxlverkun vaxtahækkanna og gengisstyrkingar.

Sú gamla er enn að víkka dressið frá 2007
Á sama tíma og verndarar verðstöðugleika hækka vexti af miklum móð er Seðlabankinn enn að kaupa gjaldeyri og að víkka peningastefnuna m.t.t. þjóðhagsvarúðarsjónarmiða. Síðasta stýrivaxtahækkun bankans sló því líkt og að hljómsveitin sé byrjuð að spila, sá gamli er kominn í ballgírinn en sú gamla er enn að víkka dressið frá 2007.

Vaxtavæl Capacent
Vissulega eru vextir háir á Íslandi og kostnaður því samfara hár en sjá má vaxtamun milli íslenskra millibankavaxta og millibankavaxta evru á mynd 6. Þegar verið er að gagnrýna háa stýrivexti Seðlabankans verður að horfa til ábatans af sjálfstæðri peningamálastefnu með sveigjanlegu gengi. Ferðamannaiðnaðurinn væri væntanlega svipur á sjón, atvinnuleysi mun hærra og afskriftir bankanna á útlánum mun hærri ef gengi krónunnar væri það sama og 2008. Oft er því verið að kasta steinum úr glerhúsi þegar vaxtastefnan er gagnrýnd en starf verðstöðugleikavarða virðist vera jafn vinsælt og starf stöðumælavarða ef marka má umræðuna undanfarið. Að gagnrýna vaxtastefnu Seðlabankans er líkt og að gefa bráðlátu barni brjóstsykur, hann æsist allur upp og verður enn óbilgjarnari í afstöðu sinni. Ástæða þess liggur í að sjálfstæði bankans er lykilforsenda og grunnstoð starfsemi hans. Hins vegar verður bankinn að horfa til mögulegs innstreymis gjaldeyris og að of háir stýrivextir geti haft neikvæð áhrif á stöðugleika hagkerfisins.

Höfundur