lock search attention facebook home linkedin twittter

08 des 2015

Skulda­bréfayf­irlit Capacent

Desember - 1. vika

Langtíma skuldabréf hækka mest í verði
Síðastliðna viku hafa langtíma skuldabréf hækkað mest í verði en helstu tækifæri á skuldabréfamarkaði voru á lengri enda vaxtaferilsins.  Lengsta verðtryggða bréfið (HFF44) hækkaði um 1,37% en lengsta óverðtryggða (RIKB31) hækkaði um 1,35%. Almennt hækkaði gengi skuldabréfa og þá sýnu meira verðtryggð bréf en gengi verðtryggðra íbúðabréfa hækkaði um 0,7% að meðaltali en gengi óverðtryggðra ríkisbréfa hækkaði um 0,4% að meðaltali.
Verðtryggðir, ríkistryggðir 3% vextir ekki oft í boði
Helstu tækifæri á skuldabréfamarkaði þessa vikuna eru að mati Capacent í stystu verðtryggðu íbúðabréfunum (HFF24) en ávöxtunarkrafan er 3%. Einnig virðast lengstu óverðtryggðu bréfin álitleg líkt og í síðustu viku en óverðtryggði vaxtaferilinn er nær flatur.
Seðlabankinn á að vera framsýnn
Stýrivaxtaákvörðun Seðlabanka verður kynnt þann 9. desember næstkomandi.  Öll rök hníga að óbreyttum vöxtum þótt þensla fari vaxandi skv. mælikvörðum Seðlabanka. Varhugavert er að horfa of mikið á einstaka mælingar og punktstöðu 12 mánaða verðbólgu, sveiflukenndir þættir geta ráðið miklu um verðbólguna í hverjum mánuði en peningamálastefnan á að vera framsýn.
Þversögn í orðum Seðlabanka
Hins vegar verður ekki horft fram hjá því að áhrif kjarasamninga á verðlag hafa verið minni en hefði mátt ætla.  Sú litla verðbólga sem verið hefur á nær öll rætur að rekja til fasteignaverðs en vísitölu neysluverðs án húsnæðis má sjá á mynd 5 á næstu síðu. Velta má fyrir sér hvort hækkun fasteignaverðs síðastliðna 24 mánuði sé ekki aðeins leiðrétting á fasteignaverði en lítið var byggt af íbúðarhúsnæði fyrstu 5 árin eftir hrun þar sem það svaraði varla kostnaði. Hækkun fasteignaverðs hefur verið hæg en samfelld frá upphafi árs 2013 en sjá má raunhækkun fasteignaverðs á mynd 6 á næstu síðu.
Verðbólgan í feluleik
Ákveðin þversögn felst í því að segja að fasteignaverð sé hátt og hækkun þess sé merki um þenslu og að Seðlabankinn þurfi að stíga niður fæti til að sporna við þenslunni. Ef fasteignaverð er hátt og hefur hækkað óeðlilega mikið að þá hljóta laun að vera lág og launahækkanir undanfarinna ára að vera hófsamar. Hin eini raunverulegi mælikvarði á fasteignaverð er laun og hlutfallslegt verðlag þess m.v. laun. Ef fasteignaverð hefur hækkað svona mikið hljóta launin að hafa hækkað svona lítið eða öfugt að fasteignaverð sé lágt þar sem laun hafa hækkað svo mikið. Kannski er verðbólgan bara búin að fela sig í Seðlabankanum.
Vanmetnir verðstöðugleikaverðir
Óstöðugleiki í efnahagsmálum og verðbólga bitnar harðast á almenningi í landinu en velta má fyrir sér hvort sé dýrari almenningi, íslenska krónan eða slæleg og eftirlátssöm hagstjórn. Hinir sí óvinsælu verðstöðugleikaverðir gegna því stærra hlutverki í að verja hagsmuni almennings en marga grunar.
Veðstuðlar stýrivaxta fyrir desember
i) Óbreyttir vextir, stuðulinn 1,25.
ii) 25 punkta hækkun, stuðulinn 2,5.
iii) Fyrir áhættufíklana, 50 punkta hækkun, stuðulinn 4,o.
iv) Fyrir þá sem telja að það frjósi í helvíti, 50 punkta lækkun, stuðulinn 20,0.
Skuldabréfayfirlit Capacent – Desember 1. vika

Höfundur