lock search attention facebook home linkedin twittter

28 sep 2015

Mega hlut­hafar græða en ekki starfs­menn?

Einu sinni voru tveir vinir, Auðunn og Eiríkur. Auðunn var latur en ríkur en Eiríkur var blankur en bæði duglegur og klár. Þeir ákveða að stofna saman fyrirtæki. Auðunn leggur til hlutaféð, 20 milljónir, en Eiríkur er ráðinn framkvæmdastjóri og leggur til hugvit sitt og starfsorku. Hann fær hófleg laun og gerir kaupréttarsamning sem gefur honum rétt til að kaupa 20% hlut í fyrirtækinu á 10 milljónir eftir 10 ár.

Greinar

Fyrirtækið vex og dafnar undir dyggri stjórn Eiríks. Starfsmönnum og viðskiptavinum fjölgar hratt og fyrirtækið skilar góðum hagnaði. Auðunn mætir reglulega á stjórnarfundi og gleðst yfir árangrinum og fær arðgreiðslur af og til. Eiríkur er nær alltaf í vinnunni enda að mörgu að huga í fyrirtæki í örum vexti. Reksturinn gengur vel og bæði starfsmenn og viðskiptavinir eru ánægðir með gang mála.

Tíu árum eftir stofnun er fyrirtækið, sem ávallt hefur verið skuldlaust, skráð á hlutabréfamarkað og er þá metið á tvo milljarða. Upphaflega fjárfestingin, 20 milljónir, hefur því hundraðfaldast í virði.

Eiríkur ákveður að nýta sér kaupréttinn, kaupir 20% í fyrirtækinu á 10 milljónir og hagnast þar með um 390 milljónir króna því 20% hlutur er 400 milljóna króna virði. Eiríkur þarf reyndar að borga hátt í helming gróðans í hátekjuskatt en er svo sem ekkert að kvarta yfir því þó það sé vissulega áskorun að fjármagna háar skattgreiðslur án þess að selja hlutabréfin.

Fjölmiðlar sýna þessum viðskiptum áhuga og umræðan verður neikvæð í garð Eiríks, talað um gráðuga stjórnendur og fleira í þeim dúr. Auðunn sleppur hins vegar alveg við gagnrýni, enda fjárfestir en ekki starfsmaður.

Þessi litla dæmisaga er skrifuð vegna tíðrar og oft neikvæðrar umfjöllunar um kaupréttarsamninga. Vissulega eru dæmi um illa ígrundaða samninga þar sem fólki er beinlínis gefnir peningar á kostnað annarra, en þetta litla dæmi sýnir að vel útfærðir kaupréttir geta virkað prýðilega sem hvatakerfi fyrir starfsmenn, ásamt því að vera til hagsbóta bæði fyrir viðskiptavini og fjárfesta.