lock search attention facebook home linkedin twittter

13 okt 2015

Lausnin er fundin… eða hvað?

Á öllum fræðasviðum koma reglulega fram kenningar og áherslur sem vekja athygli, eru taldar marka tímamót eða vera lausn vandamála á tilteknum sviðum. Slíkt er mikilvægur hluti af þróun og þroska allra fræða.

Greinar

Það sem er hins vegar mikilvægt í þessu sambandi er að vera minnugur orða Siddhārtha Gautama Buddha sem sagði; „Trúðu engu, sama hvar þú last það eða hver sagði það, nema það sé í samhljómi við þína eigin rökhugsun og skynsemi.“ Með því er átt við að stjórnendur, ráðgjafar, blaðamenn, kennarar og allir þeir sem á einn eða annan hátt eru að vinna með fræðin, horfi á nýjar hugmyndir og kenningar sem hluta af tiltekinni þróun, hinni stöðugu þekkingarleit. Leggi eigið mat á það sem á borð er borið og velti fyrir sér á gagnrýninn hátt því viðbótarvirði sem ný hugmynd eða nálgun felur í sér.

Staðreyndin er sú að of oft er litið á nýja hugmynd sem hina einu sönnu; að „lausnin“ sé fundin. Að komin sé fram nálgun eða lausn sem leysir málin í eitt skipti fyrir öll. Tökum nokkur dæmi.

Fyrir áratug kom út bókin Blue Ocean Strategy eftir Kim og Mauborgne, sem þótti koma með byltingarkennda nálgun við stefnumótun og var hyllt sem slík. Loksins væri nánast kominn fram hinn stóri sannleikur við mótun stefnu. Óvenjulegt og sterkt heiti á bókinni hjálpaði til og brátt varð  til „brand“ þ.e. vörumerkið BOS sem fyrirtæki kepptust við að horfa til. Rétt er að taka fram að margt var áhugavert við þessa nálgun og sérstaklega var athyglisvert hvernig höfundarnir römmuðu inn lykilspurningar og notuðu sterkar myndir til að sýna hugmyndafræðina. Heiti bókarinnar vísaði í að fyrirtæki ættu að stefna að „bláu hafi“ til að finna viðskipti í stað þess að berjast við keppinauta blóðugri (rauðri) baráttu.

En ef grannt var skoðað var þarna ekki á ferðinni jafn róttæk hugsun og margir vildu vera láta. Nær tuttugu árum fyrr höfðu markaðsmennirnir Trout og Ries vakið athygli á þessu sama í tímamótaverkinu Positioning. Þar segja þeir m.a. „Ef allir eru að sækja upp hæðina, hvers vegna ekki að kanna dalinn í staðinn“. Sama grunnhugsun og hjá Kim og Mauborgne. Og síðar byggði Michael Porter þekktasti fræðimaður stefnumótunar, að stórum hluta sínar kenningar á mikilvægi þess að fyrirtæki finndu sína sérstöku stöðu á markaði. Finndu sitt bláa haf.

Sagan er vörðuð nýjungum sem á sínum tíma áttu að vera lausn fyrir stjórnendur á öllum sviðum. Fyrir þrjátíu árum kom altæk gæðastjórnun fram – Total quality management – og sú nálgun átti að leysa málin. Upp úr 1990 kom Michael Hammer með áherslur á ferlagreiningar – Reengineering – sem hlaut gríðarlega athygli og margir litu á sem það eina sem skipti máli við rekstur fyrirtækja. Skömmu síðar komu Kaplan og Norton fram með stefnumiðað árangursmat – Balanced Scorecard – sem var tekið opnum örmum sem leiðinni til farsældar. Nokkrum árum fyrr hafði enn ein aðferðin verið álitin sú eina sanna; benchmarking. Allt átti að snúast um að skoða það sem keppinautarnir voru að gera og tileinka sér það besta frá öllum.

Hér eru örfá dæmi nefnd um „nýja“ nálgun og hugsun sem sannanlega bættu við þá þekkingu sem fyrir var. Kenningar sem skerptu tilteknar áherslur, sýndu nýtt samhengi eða stilltu fram sterku sjónrænu líkani til að vinna með. En það er og verður grundvallaratriði að litið sé á slíkar nýjungar og kenningar sem hluta af stöðugri þróun og þroska fræða en ekki sem stórasannleik; sem lausnina einu og sönnu.

Kjarni málsins er sá að mikilvægt er fyrir stjórnendur sem marka stefnu fyrirtækis og skipuleggja stjórnun og starfsemi, að vera gagnrýnir á allt það sem fram kemur um bætta stjórnhætti eða ný vinnubrögð. Setja verður nýja framsetningu í samhengi við annað sem vitað er, skoða í raun það virði sem ný áhersla skapar, og máta þannig við sína eigin dómgreind og skynsemi. Það er farsælasta leiðin til árangurs.