lock search attention facebook home linkedin twittter

02 júl 2015

Hvers vegna skilar stefnan sér ekki í árangri?

Flekaskilin á milli stefnumótunar og innleiðingar stefnu eru í eðli sínu óljós. Það liggur í hlutarins eðli að stjórnendur fyrirtækja og stofnana eru samhliða sjálfri mótun stefnunnar farnir að huga að því hvernig eigi að hrinda hlutum í framkvæmd með aðgerðabindingu og hvernig eigi að byggja upp skipulag sem styður við stefnuna.

Greinar

Að sama skapi getur stefna aldrei verið fasti. Hún er ekki greypt í stein  heldur háð stöðugu endurmati og endurtúlkun í ljósi þeirra síbreytilegu aðstæðna sem fyrirtæki og stofnanir þurfa að takast á við.

Það er stundum haft á orði að innleiðing sé grafreitur stefnumótunar og slakur árangur í framkvæmd stefnu oft tengdur ómarkvissri innleiðingu. En er það mögulega of einföld skýring? Síðastliðinn vetur átti sér stað athyglisverð umræða í Harvard Business Review þar sem þessari staðhæfingu var snúið á hvolf. Er stefnunni sjálfri hugsanlega stundum frekar um að kenna en innleiðingunni? Væri kannski nær að velta því fyrir sér hvort að stefnan sem var mótuð sé að einhverju leyti ekki framkvæmanleg frekar en að kenna ávallt innleiðingu um sem er auðvelda leiðin?

Roger L. Martin við Toronto-háskóla,  höfundur bókarinnar Playing to win: How Strategy Really Works, færði rök fyrir því að þeir sem kenndu innleiðingu um væru yfirleitt áður búnir að skilgreina innleiðingu með þeim hætti að hún hefði öll einkenni strategíu. Hann segir þá sem mest tala um innleiðingu oft falla í þessa gildru vegna þess að þeir vilji gera þann greinarmun að stefnumótun snúist um að ákveða hvað eigi að gera og innleiðing sé að framkvæma það sem eigi að gera.

Martin telur þessa röksemdafærslu ekki ganga upp. Ef algjörlega sé skilið á milli þess að ákveða og framkvæma þá hljóti það að þýða að menn framkvæmi án þess að standa nokkurn tímann frammi fyrir einhvers konar vali. Í raunveruleikanum séu ákvarðanir um aðgerðir hins vegar ávallt byggðar á mati á því hvað sé skynsamlegt, ákvarðanir séu háðar óvissu og samkeppni.

Ef stefna á að skila árangri verður hún að vera skýr og endurspegla raunverulega stöðu en ekki skýjaborgir. Kjarninn í því sem Martin er að segja nýst að miklu leyti um þetta. Ef stefnan er ekki að skila árangri er mjög auðvelt að kenna slælegri innleiðingu um. Auðvitað getur það verið raunin, það er margt sem getur farið úrskeiðis á leiðinni frá mótun stefnu til innleiðingar þótt stefnan sjálf sé skýr og skynsöm.

En það getur líka ekki síður verið full ástæða til að spyrja hvort að eitthvað hafi farið úrskeiðis við sjálfa stefnumótunina. Oft er stefna mótuð af æðstu stjórnendum í eins konar lofttæmi án þess að tengt sé inn í þá miklu þekkingu, reynslu og beinu snertingu við markaðinn sem er að finna víðs vegar um fyrirtækið.  Vissulega er það eitt mikilvægasta verkefni stjórnenda að móta stefnu fyrirtækisins. Skýr stefna verður hins vegar ekki mótuð með því að loka sig af inni á skrifstofu heldur með ítarlegri greiningu á starfsemi og stöðu fyrirtækisins, þar sem dreginn er fram sérstaða þess, styrkur og þær áskoranir sem staðið er frammi fyrir.

Árangursrík innleiðing byggir ekki síst á því að allir þekki stefnuna og samsami sig við stefnuna í sínu daglegu störfum. Stefna sem byggir á raunsærri greiningu á stöðu og áskorunum er líkleg til að fá hljómgrunn með starfsmanna og samhentu átaki um aðgerðir til að hrinda henni í framkvæmd.

Steingrímur Sigurgeirsson
Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. júlí 2015.
© Capacent/Steingrímur Sigurgeirsson