lock search attention facebook home linkedin twittter

15 júl 2015

Hvað með Gunnars majones?

Það vakti athygli í viðskiptalífinu fyrir nokkrum dögum þegar greint var frá því að hið rótgróna fyrirtæki Gunnars majones hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta eftir að hafa starfað rúma hálfa öld. Á þessum tíma hafði fyrirtækið skapað sér sterka stöðu á markaði með sinni aðal vöru sem var majones.

Greinar

Vörumerkið Gunnars majones var spyrt við vöruflokkinn sjálfan og nánast samnefnari fyrir allt majones. Þekktasta dæmi um slíkt í dag er vörumerkið Google sem er orðið almenna heitið yfir leit á netinu; að „gúgla“. Því er þetta gert að umfjöllunarefni hér að stundum láta sterk vörumerki undan síga í markaðsbaráttu samtímans og það þrátt fyrir að hafa náð óskastöðu eins og Gunnars majones óneitanlega hafði. Þar spila oftast tveir þættir sterkast inn sem áhugavert er að velta fyrir sér.

Annar þátturinn – sem getur valdið byltingu en er fátíðari – snýr að tæknilegri þróun. Hér verða tæknilegar framfarir sem í einni svipan geta kippt fótunum undan ábatasömum viðskiptum. Þekkt dæmi er þegar að framleiðsla og sala filma, sem var mjólkurkú Kodak fyrirtækisins, varð nánast úrelt með tilkomu stafrænu tækninnar. Í stað þess að kaupa filmur sem varð að framkalla með tilheyrandi kostnaði, gat neytandinn tekið eins margar myndir og hann vildi og valið þær bestu í rólegheitum. Þar með hrundi sú mikilvæga stoð Kodak sem setti um leið fyrirtækið á hliðina. Tengt þessu má leiða hugann að áhrifum aukinnar rafvæðingar reiknings- og skattskila á þjónustu við bókhald og endurskoðun, þar sem upplýsingar eru í auknum mæli sóttar í gagnagrunna og unnar beint inn í formin. Einstaklingar hafa upplifað þetta við skil skattskýrslna sem í dag komast nánast tilbúnar til undirskriftar á netinu.

Lærdómurinn fyrir stjórnendur fyrirtækja er að velta stöðugt fyrir sér hvaða tæknilega þróun sé í farvatninu sem getur breytt starfsgrundvelli starfseminnar.

Hinn áhrifaþátturinn – og sá sem hefur stöðugt áhrif – er viðhorf og hegðun neytenda. Þeirra sem kaupa vöru og þjónustu. Á hverjum tíma hafa straumar og stefnur áhrif á það sem neytendur kaupa hvort sem það er majones eða annað. Á síðustu árum hefur orðið mikil vakning í viðhorfum til innihalds matvæla bæði hvað varðar hollustusjónarmið sem og hvaðan þau eiga uppruna sinn. Umræðan um beikonið síðustu daga sýnir það. Aukin heimilisiðnaður og áhugi á ræktun grænmetis og krydda hefur leitt til þess að fleiri einstaklingar vilja búa til sósur og annað frá grunni. Nota sem minnst af tilbúnum „blöndum“. Þessi þróun hefur m.a. bitnað á sölu unninna matvæla og áherslan færst á kaup beint af býli. Þetta þýðir að framleiðendur matvæla þurfa að fylgjast vel með því hvert þróunin stefnir og bregðast við á viðeigandi hátt. Og vera á undan samkeppnisaðilum.

Mögulega hafa breytt viðhorf neytenda haft neikvæð áhrif á neyslu majones og þar með dregið úr styrk Gunnars majones og verið ráðandi þáttur í gjaldþroti fyrirtækisins. Og það þrátt fyrir að fyrirtækið hefði þá ákjósanlegu stöðu að vera nánast samnefnari fyrir tiltekna vörutegund. En sem í þessu tilfelli gat mögulega verið til trafala ef viðhorf til ágætis vörunnar var að breytast. Benda má á tengt þessari stöðu að KFC, sem við Íslendingar þekkjum svo vel, var talið hafa hætt að nota Kentucky Fried Chicken til að taka út „steikinguna“ úr heitinu vegna breytts viðhorfs neytenda.

Lærdómur fyrir stjórnendur fyrirtækja er sá að nauðsynlegt er að fylgjast vel með því sem er að gerast í viðhorfum til margvíslegra þátta sem snúa að neyslu og kauphegðun. Það er því ljóst að þó nýir eigendur Gunnars majones byggi á sterku vörumerki þá er það áskorun að þróa stöðu þess og framtíð með tillit til þeirra krafta sem ekki síst snúa að síbreytilegum þörfum neytenda.

Þórður Sverrisson
© Capacent/Þórður Sverrisson