lock search attention facebook home linkedin twittter

25 jún 2015

Fyllri upplýs­ingar eru öllum í hag

Fjármálaráðgjöf Capacent er óháð ráðgjafar- og greiningardeild innan Capacent sem gefur reglulega út greiningar sem seldar eru í áskrift. Við teljum það skyldu okkar og starf að benda á það sem betur mætti fara á íslenskum fjármálamarkaði.

Við fögnum þeirri umræðu sem ný skýrsla Capacent um fasteignafélög í Kauphöllinni hefur vakið. Þá er það eftirtektarvert að markaðurinn virðist hafa tekið mið af innihaldi skýrslunnar þar sem öll fasteignafélögin hafa hækkað í verði í samræmi við efni skýrslunnar.
 
Meðal þess sem Fjármálaráðgjöf Capacent vakti athygli á í skýrslunni er að í skráningarlýsingu Eikar voru ekki fjárhagsupplýsingar um Landfestar sem félagið yfirtók á árinu 2014 en fjárfestingareignir Landfesta árið 2014 voru um 37% af eignasafni Eikar árið 2014 og um 40% af væntum rekstrartekjum Eikar árið 2015. Framangreindar upplýsingar eru nauðsynlegar að mati fjármálaráðgjafar Capacent til að hægt sé að meta afkomu og framtíðarhorfur í rekstri Eikar.
Fulltrúar Eikar og Arion banka, sem sá um skráningu félagsins, hafa báðir hafnað því að upplýsingum hafi verið áfátt. Það er hins vegar ekki að sjá að fulltrúi Arion banka hafni því að þessar upplýsingar hafi ekki verið að finna í skráningarlýsingu Eikar þar sem hann vísar til að þær hafi mátt finna annars staðar en í sjálfri lýsingunni, eða við eldri skráningu skuldabréfaflokks Landfesta í nóvember 2014.
Fjármálaráðgjöf Capacent telur að þessar upplýsingar hefðu átt að fylgja með í skráningarlýsingu Eikar frá því apríl 2015 og stendur því við gagnrýni sína hvað þetta varðar. Þá er vert að benda á að forstjóri Kauphallarinnar tekur undir í Morgunblaðinu þann 25. júní að það hefði verið æskilegt ef vísað hefði verið í fjárhagsupplýsingar um Landfestar í lýsingu á Eik þótt hann sé ekki sammála að upplýsingagjöfinni hafi verið ábótavant.
Ekki er gerður ágreiningur um það mat FME og Kauphallarinnar að lágmarkskröfur hafi verið uppfylltar.  Það hlýtur hins vegar að vera í hag bæði skráningarfélagsins og hugsanlegra fjárfesta að upplýsingar um viðkomandi félag séu hvað fyllstar í sjálfri skráningarlýsingunni.
Fjármálaráðgjöf Capacent fullyrti aldrei að lög hefðu verið brotin en taldi einfaldlega að frekari upplýsingar í skráningarlýsingunni hefðu verið gagnlegar þegar kæmi að verðmati félagsins. Þótt fjármálaráðgjöf Capacent hefði verið að kalla eftir ítarlegri upplýsingum um Landfestar í skráningarlýsingu Eikar tók Capacent sérstaklega fram í skýrslu sinni að upplýsingar varðandi eignir í skráningarlýsingu Eikar væru til fyrirmyndar.
Fjármálaráðgjöf Capacent benti einnig á að skráningaraðilinn sem var Arion banki, er einnig stærsti eigandi tveggja félaga sem var verið að skrá. Skráningaraðili ákvarðar útboðsgengi og hefur auk þess mikil áhrif á upplýsingagjöfina bæði í gegnum eignarhald og umsjón með skráningu. Það er hins vegar rétt sem Arion banki benti á að það sé ákvörðun fjárfesta að ákveða á hvaða verði þeir kaupa bréfin og gerði Capacent enga athugasemd við það. Fjármálaráðgjöf Capacent telur hins vegar fullkomlega eðlilegt og í raun skylda óháðra greiningaraðila, að benda á að skráningaraðilinn sé einnig einn stærsti eigandinn að félögunum og um leið seljandi þeirra. Þótt þetta fyrirkomulag sé ekki óleyfilegt að mati FME tekur FME undir að eðlilegt sé að greina frá hagsmunatengslum í skráningarlýsingu.
Fjármálaráðgjöf Capacent var einfaldlega að benda á þessi hagsmunatengsl í skýrslu sinni eins og Arion banki réttilega gerði einnig í skráningarlýsingunni.
Fjármálaráðgjöf Capacent leggur áherslu á mikilvægi þess að óháðir greiningaraðilar leggi mat á félög á markaði og mun eftir sem áður gera ríkar kröfur þegar kemur að upplýsingum um slík félög.

Höfundur