lock search attention facebook home linkedin twittter

10 mar 2015

Frétta­til­kynning frá Gallup og Capacent

Starfsmenn á rannsóknarsviði Capacent hafa keypt rannsóknarhluta fyrirtækisins. Rannsóknarsviðið sem starfað hefur undir merkjum Capacent Gallup mun framvegis starfa undir merkjum Gallup.

Ráðgjafar- og ráðningasvið Capacent er óbreytt og er félagið áfram í eigu starfsmanna.
Markmið þessara breytinga er að skerpa áherslur Capacent í ráðgjöf og ráðningarþjónustu og Gallup í rannsóknum og upplýsingaþjónustu.
Capacent er leiðandi ráðgjafarfyrirtæki sem byggir á fjölbreyttri reynslu og þekkingu starfsfólks sem vinnur af metnaði með viðskiptavinum. Ráðgjafar Capacent vinna að greiningu, mótun og innleiðingu margvíslegra verkefna á sviði stefnumótunar, ráðninga, rekstrar, fjármála og upplýsingatækni. Hjá Capacent starfa um 50 ráðgjafar með víðtæka reynslu úr flestum hliðum atvinnulífsins og sækir fyrirtækið sérhæfðar lausnir og þekkingu til leiðandi alþjóðlegra samstarfsaðila. Meðal þeirra eru Microsoft, IBM (Cognos og SPSS), Qlik, CEB (áður SHL), Flexera og Wilson Learning. Capacent á einnig gott samstarf við samnefnd systurfyrirtæki á Norðurlöndunum.
Gallup hefur áratuga langa sögu á sviði rannsókna á Íslandi og hefur veitt þjóðinni innsýn í málefni líðandi stundar. Gallup hefur á að skipa starfsfólki sem býr yfir mikilli reynslu af markaðs-, starfsmanna- og viðhorfarannsóknum og er fjöldi fastráðinna starfsmanna 36 í Reykjavík og á Akureyri. Með eigin vöruþróun og samvinnu við erlend rannsóknarfyrirtæki eins og Gallup, TNS, Kantar Media og Nielsen býður Gallup staðlaðar sem og sérhannaðar lausnir á sviði rannsókna og upplýsingaþjónustu fyrir fyrirtæki, stofnanir og hagsmunasamtök af öllum stærðum og gerðum. Gallup mun eins og áður kappkosta að koma skoðunum fólksins í landinu á framfæri og veita framúrskarandi þjónustu á sviði rannsókna og upplýsingaþjónustu.
Capacent og Gallup starfa bæði áfram í Ármúla 13. Félögin munu eiga samstarf áfram við að uppfylla þjónustuþarfir viðskiptavina sinna.
Nánari upplýsingar veita:
Ingvi Þór Elliðason framkvæmdastjóri Capacent og Einar Einarsson framkvæmdastjóri Gallup

Höfundur