lock search attention facebook home linkedin twittter

15 júl 2015

Forsendur vinnu við mótun stefnu

Til að vinna markvissa stefnumótun þarf margt til. Ég hef í gegnum tíðina stuðst við fimm grundvallaratriði; forsendurnar sem tengjast innbyrðis en þurfa allar að vera fyrir hendi.

Greinar

Upplýsingar; án nauðsynlegra upplýsinga er hætt við að ákvarðanir um aðgerðir eða frekari vinna byggi á sandi; getgátum eða óskum. Ákvarðanir þurfa að byggjast á upplýsingum. Upplýsingar eru frumforsenda þess að geta tekið vitræna ákvörðun. Í stefnumótun skiptir þetta miklu máli. Þörfin fyrir að skoða margvíslega fleti í innra sem ytra umhverfi fyrirtækja er mikil. Til að átta sig á stöðu einstakra mála þarf að skoða heildarmyndina. Nauðsynlegt er að nálgast greiningu með opinn huga. Hvaða upplýsingar skipta mestu máli til að átta sig á stöðunni? Stundum er það svo að maður áttar sig ekki alltaf á að eitthvað skipti máli fyrr en maður sér það. Eða sér það ekki. Stundum hrópar eitthvað á mann úr gögnunum þó að engin tilgáta hafi legið fyrir í byrjun um mikilvægi þess. Stundum veit maður hreinlega ekki hvort efni sé áhugavert eða gagnlegt fyrr en maður er búinn að taka það saman. Verum minnug orða Einsteins sem sagði; „Ekki telur allt sem er talið, og ekki er allt talið sem telur“.

Þekking; gögn eru aðeins það; gögn, sem á eftir að breyta í upplýsingar. Gögn verða ekki að upplýsingum nema þau séu greind og túlkuð. Þess vegna er ekki nóg að viða að sér alls konar gögnum heldur verður að vera til staðar þekking – kunnátta – til að meta það sem fyrir liggur. Þekking til að greina gögnin. Þessi þekking getur komið með námi eða reynslu og getur verið til staðar innan fyrirtækisins eða sótt utan þess. Oftar en ekki skapar þekking forsendur breytinga, nýtingu tækifæra og samkeppnisyfirburði. Horfa þarf til mælanlegra staðreynda sem túlkaðar eru með stærðfræði og rökhyggju, en eining vinna með þekkingu sem tengist tilfinningum. Við skoðun og mat á gögnum þarf meðvitund um margbrotið samband allra hluta og hafa opinn huga og vitund út fyrir þá vísindalegu, köldu nálgun sem gjarnan er viðhöfð við greiningu gagna. Greining gagna er forsenda upplýsinga, sem ályktanir byggja á, sem leiða til ákvarðana, og að lokum aðgerða til að hreyfa fyrirtækið í átt að framtíðarsýn þess.

Tími; stjórnun tíma er mikilvæg og eitt það mikilvægasta sem við fáumst við þó að sum verkefni séu í nokkuð föstum skorðum. Þótt fyrir hendi sé þekking til að breyta gögnum í upplýsingar og rýna í þær, þá er ekki sjálfgefið að stefnumótuninni sé gefinn sá tími sem þörf er á. Stefnumótun krefst tíma í samræmi við það mikilvægi sem hún hefur fyrir framtíðarárangur fyrirtækis.

Áhugi og metnaður; til að verkefni verði unnið á skilvirkan, skynsamlegan og markvissan hátt þarf vilja. „Við getum ekki viljað neitt án þess ósjálfrátt að framkvæma. Framkvæmdin er ekki afleiðing viljans, hún er hið sama og viljinn sjálfur. Viljinn er lykillinn að þekkingu mannsins á sjálfum sér“ segir Gunnar Dal. Þarna var heimspekingurinn reyndar orðinn dálítið djúpur en maður skynjar samt hvað hann er að fara. Þótt fyrir hendi séu upplýsingar, þekking til að vinna með þær og tími til ráðstöfunar, þá gerist stundum ekki neitt því áhuga og metnað skortir.

Stuðningur stjórnenda; síðast en ekki síst þarf stuðning þeirra sem hafa valdið og ábyrgðina. Stefnumótun hefur þörf fyrir öfluga þátttöku og stuðning stjórnenda. Forystu breiðs hóps stjórnenda sem eru fyrirmynd annarra starfsmanna í markvissri vinnu við alla þætti stefnumótunar.

Kjarni málsins er sá að stefnumótun þarf að byggja á fimm lykilforsendum til að hún sé unnin á markvissan hátt og sé líkleg til að skila ávinningi fyrir fyrirtækið; öflugri greiningu upplýsinga, þekkingu til að vinna verkefnið, tíma til að horfa á heildarmyndina og útfæra stefnu, áhuga og metnað til að vinna markvissa vinnu, og stuðning stjórnenda sem skapa réttar aðstæður og umgjörð til að virkja starfsfólk.

Þórður Sverrisson
© Capacent/Þórður Sverrisson