lock search attention facebook home linkedin twittter

30 okt 2015

Enn geng­is­hækk­anir á skulda­bréfa­markaði

Skuldabréfayfirlit Capacent

Lækkun ávöxtunarkröfu óverðtryggðra ríkisbréfa var heldur minni í síðustu viku en vikurnar á undan. Gengi ríkisbréfa hækkaði að meðaltali um 0,37%. Gengi verðtryggðra bréfa hækkaði mun meira síðastliðna viku eða um 0,93% samfara lækkun ávöxtunarkröfu að meðaltali um 10 punkta.  Verðbólguálagið til 8 ára hefur hækkað nokkuð frá því það náði lágmarki í síðustu viku í um 2,75%. Verðbólguálagið er nú 2,92%.

Samkvæmt framvirka óverðtryggða vaxtaferlinum  virðast bestu kaupin til skamms tíma í RIKB25 en að fjárfestar ættu heldur að létta um stöður í RIKB20.  Samkvæmt framvirka verðtryggða vaxtaferlinum virðast bestu kaupin í lengsta bréfinu HFF44.

Eftirspurnarhliðin hefur verið sterk undanfarið á skuldabréfamarkaði. Eftirspurn eftir skuldabréfum getur hins vegar verið hverful. Framboðshliðin er mun stöðugri en búast má við útgáfuáætlun ríkisbréfa frá Lánasýslu ríkisins í lok árs.

Framboðshliðin
Hressir, bætir og kætir
Fátt er meira hressandi í skammdeginu en að lesa greinargerð Seðlabanka um uppgjör fallinna fjármálastofnana. Að mati Seðlabanka uppfylla slitabúin þrjú stöðugleikaskilyrði. Við uppgjör búanna, bráðnar snjóhengjan að mestu sem er forsenda fyrir afnámi gjaldeyrishafta. Hrein erlend skuldastaða verður sú besta til margra áratuga eftir uppgjör slitabúa. Sá vandi sem virtist illviðráðanlegur og stóð framgangi viðskiptalífsins fyrir þrifum virðist því að mestu leystur.
Meiri arðgreiðslur, uppgreiðsla lána og sala á eignarhlut ríkisins í bönkunum mun lækka skuldir ríkissjóðs:

Nú stefnir allt í að Íslandsbanki verði kominn í hendur ríkisins líkt og Landsbankinn. Rekstrarumhverfi bankanna er fremur sérstakt þar sem arðgreiðslur hafa ekki verið sérlega hagfelldar eigendum Arion banka og Íslandsbanka. Framangreint leiðir til þess að mikið eigið fé safnast upp í bönkunum sem dregur úr arðsemi þeirra nema að bankarnir stækki og auki tekjugrunn sinn um leið.

Búast má við að Íslandsbanki muni í meira mæli greiða arð sem nú mun renna til ríkissins. Tekjuafkoma ríkisins mun því styrkjast tímabundið, auk þess sem víkjandi lán ríkisins til bankanna verða greidd. Háar arðgreiðslur, uppgreiðsla lána og væntanleg sala á eignarhlut ríkisins í bönkunum mun bæta skuldastöðu ríkissjóðs og væntanlega draga úr framboði ríkisbréfa.

Útlit fyrir óbreytta stýrivexti Seðlabanka:
Að mati Capacent eru mestar líkur á að Seðlabankinn haldi stýrivöxtum óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunardegi í byrjun nóvember.

Lítilsháttar hækkun á vnv:
Vísitala neysluverðs hækkaði 0,07% í október en Capacent gerði ráð fyrir að vnv yrði lítilsháttar fyrir ofan núllið.

Skuldabréfayfirlit Capacent – Október 4w

Höfundur