lock search attention facebook home linkedin twittter

09 nóv 2015

Einu ári eldri í dag en í gær en ekki sentí­metra hærri!

Skuldabréfayfirlit Capacent

Grallarar í Seðlabankanum
Grallararnir í Seðlabankanum hafa sett allt á annan endann á skuldabréfamarkaði með hækkun stýrivaxta um 25 punkta. Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisbréfa hækkaði um 58 punkta að meðaltali á tímabilinu 4. til 6. nóvember og hefur sjaldan sést viðlíka hækkun vaxta á markaði. Gengi ríkisbréfa lækkaði um 2,9% að meðaltali. Ávöxtunarkrafa verðtryggðra íbúðabréfa hækkaði um 16 punkta á sama tíma og lækkaði gengi verðtryggðra bréfa um 1,3% að meðaltali.

Kauphlið veik og markaður grunnur
Það veldur áhyggjum hversu kauphliðin er veik og lágar fjárhæðir þarf til að hreyfa ávötunarkröfuna mikið. Tilgangur viðskiptavaka er að dýpka markað til að fjárfestar geti selt og keypt háar fjárhæðir án þess að gengi breytist of mikið. Hún virðist þó veita lítið viðnám og er líkt og tryllingslegur flótti sé kominn í fjárfesta á skuldabréfamarkaði fremur en að um sé að ræða skipulagt undanhald.

Fjárfestar hafa tapað yfir 25 milljörðum á þremur dögum
Fjárfestar hafa tapað vel yfir 25 ma.kr. í ríkisbréfum og íbúðabréfum á þremur dögum en stærstu eigendur þeirra eru lífeyrissjóðir og stofnanafjárfestar. Verðmæti á við eitt til tvö félög í Kauphöllinni hafa því þurrkast út.

Hvað varð um skipulagðan verðbréfamarkað?
Ólíklegt er að stærri fjárfestar séu hressir þessa dagana. Þróun síðastliðna daga er ekki til þess fallin að auka traust á innlendum verðbréfamarkaði, skipulagður skuldabréfamarkaður er grunnur og fjárfestahópurinn of einsleitur. Leita þarf leiða til að dýpka markað og fá stærri hóp fjárfesta að borðinu.

Vestfirskir Spánverjar
Samkvæmt heimildum Lánasýslu ríkisins var eign erlendra aðila í innlendum ríkisskuldabréfum 193,8 ma.kr. þann 31. október síðastliðinn. Þann 30. september nam eign þeirra 185,8 ma.kr. og jókst því um 8 ma.kr. milli mánaða. Erlendir fjárfestar eru því vissulega að fjárfesta að auknum þunga á innlendum skuldabréfamarkaði en mikil hækkun gengis skuldabréfa í október bendir þó til að kannski hafi einhverjir af þessum erlendu fjárfestum í besta falli verið vestfirskir Spánverjar.

Eftiráspeki mánaðarins:
Einu ári eldri í dag en í gær en ekki sentímetra hærri!
Ekki hafa verið neinar grundvallarbreytingar í efnahagsmálum þjóðarinnar síðastliðinn mánuð. Capacent spáði 25 punkta vaxtahækkun í lok september sem ekki varð fyrr en rúmlega mánuði seinna. Byggðist sú spá á atferli og göngulagi seðlabankastjóra og eftirfarandi staðreyndum: i) Seðlabankinn á að vera framsýnn, hagvöxtur var myndarlegur á fyrri helmingi ársins, framleiðsluspenna virðist fara hratt vaxandi, ii) Kjarasamningar innhéldu launahækkanir sem að mati flestra hagfræðinga munu óhjákvæmilega koma fram í verðlagshækkunum, iii) Aðhald ríkisfjármála virðist fara minnkandi í samhengi við framleiðsluspennu, iv) Einn nefndarmanna vildi 75 punkta vaxtahækkun síðast, v) Þrýstingur á Seðlabankann er mikill um að halda stýrivöxtum óbreyttum.

Ef bankinn heldur stýrivöxtum óbreyttum þarf rökstuðningur bankans að vera enn sterkari til að sýna fram á að bankinn hafi ekki látið undan þrýstingi. Eina sem vinnur á móti stýrivaxtahækkun er gengisstyrking og betri verðbólguhorfur til skamms tíma en eins og áður sagði á bankinn að vera framsýnn.

Samdráttur í framboði yfirvofandi
Staðan í efnahagsmálunum hefur ekki breyst síðastliðna 3 daga. Útlit er fyrir að framboð íbúðabréfa dragist saman enn hraðar en áður. Frá upphafi árs 2013 hefur framboð Íbúðabréfa dregist saman um 80 ma.kr. Sala bankanna og afnám gjaldeyrishafta bætir skuldastöðu ríkissjóðs svo um munar.

Er verið að fjármagna kaup á Arion banka? 
Ein útskýring á þessum tryllingslegu viðbrögðum á skuldabréfamarkaði við 25 punkta hækkun Seðlabankans gæti verið sú að fjármagna þurfi kaup á stórri fjárfestingu. Ekkert hefur í raun breyst annað en að fréttir hafa borist af áhuga fjárfesta og lífeyrissjóða á að kaupa Arion banka. Fáir henta betur til þess að vera blórabögglar en prakkararnir í Seðlabankanum.

Steikin brann á grillinu
Jafn miklum hagnaði og það skilaði undanfarnar vikur að skortselja skammtíma ríkisbréf og kaupa langtíma ríkisbréf hefur það skilað jafn miklu tapi síðastliðna 3 daga.
HFF24 skjól í fallvöltum heimi

Hins vegar vekur athygli að ávöxtunarkrafa HFF24 er nú umtalsvert hærri en um miðjan ágúst en skammtíma verðtryggð skuldabréf ættu einmitt að vera besta skjól fjárfesta við þær aðstæður sem ríkt hafa á markaði.

Skuldabréfayfirlit Capacent – Nóvember 2015

Höfundur