lock search attention facebook home linkedin twittter

11 sep 2015

Eigið fé er ekki ókeypis

Á efnahagsreikningi fyrirtækja eru tvær hliðar – debet og kredit. Debet megin eru eignir, og kredit megin eru skuldir og eigið fé. Við þekkjum öll eignir og skuldir en færri vita að eigið fé er eins konar skuld fyrirtækis gagnvart hluthöfum.

Greinar

Þessi skuld lítur öðrum lögmálum en aðrar skuldir svo sem bankalán. Bankalán bera vexti og eru auk þess oft tryggð með veðum sem tryggja að bankinn fær sína peninga á undan öðrum ef rekstur gengur illa. Hluthafar mæta hins vegar afgangi og við gjaldþrot fyrirtækja tapa þeir öllu sínu. En ef vel gengur fá hluthafar ávöxtun á sitt fé, annaðhvort í formi arðgreiðslna eða með hækkun á verðgildi hlutabréfanna. En einmitt vegna þess að hluthafar eru síðastir í röðinni þá er eigið fé í raun dýrara en lánsfé. Segja má að fyrirtækið umbuni hluthöfum þolinmæðina og áhættuna.

Þá komum við að kjarna málsins. Að okkar mati er of sjaldan tekið tillit til eiginfjár þegar árangur fyrirtækja er metinn. Menn ræða æði oft um rekstrarafkomu (t.d. EBITDA, EBIT eða hagnað) án þess að setja afkomuna í samhengi við það fjármagn sem reksturinn notar. En það er að okkar mati varhugaverð nálgun. Það er nefnilega ekkert sérstakt afrek að skila 5 milljónum króna í hagnað eftir skatta ef maður hefur 500 milljónir í eigið fé til að vinna með. Hagnaður upp á 5 milljónir þar sem eigið fé er einungis 10 milljónir er hinsvegar frábær árangur. Í fyrra dæminu ávaxtast eigið féð um 1% en í því seinna um 50%, jafnvel þó í báðum dæmunum sé hagnaður eftir skatta sá sami. Þetta ber ávallt að hafa í huga.

Í ársskýrslum fyrirtækja fá þessi sjónarmið yfirleitt lítinn fókus. Það sama gildir oft um fjölmiðla. Stundum er talað um það sem sérstakt afrek ef EBITDA eykst milli ára en gleymist að geta þess að fyrirtækið hefur lagt út í verulegar fjárfestingar til að auka tekjur, m.ö.o. keypt aukninguna dýrum dómi. Til að bæta gráu ofan á svart þá er algengt að kaupaukar stjórnenda séu tengdir mælikvörðum sem hafa lítið með raunverulegan fjárhagslegan árangur að gera. En þetta er sem betur fer aðeins að þokast í rétta átt.  Æ fleiri stjórnendur viðurkenna þá staðreynd í verki að eigið fé er ekki ókeypis og því ástæðulaust að láta sem svo sé við árangursmat.

Ingvi Þór Elliðason,
framkvæmdastjóri Capacent