lock search attention facebook home linkedin twittter

09 sep 2015

Capacent og Nexus Global í samstarf

Viðhaldsstjórnun og áreiðanleiki búnaðar bætist við framboð Capacent á ráðgjöf og þjónustu

Capacent hefur undirritað samkomulag um samstarf við Nexus Global, fjölþjóðlegt fyrirtæki á sviði viðhaldsstjórnunar og áreiðanleika búnaðar. Samkomulagið gerir ráð fyrir gagnkvæmri þátttöku fyrirtækjanna í verkefnum hvers annars. Með samstarfinu opnast möguleikar fyrir Capacent að bjóða þjónustu sem ekki hefur verið á boðstólum hérlendis í  heildstæðri mynd.
 „Við höfum um langt skeið unnið með stóriðjufyrirtækjum og fleiri aðilum sem hafa þarfir fyrir þjónustu á þessu sviði. Okkar vinna þar hefur oft verið á jaðrinum eða skarast við sérsvið Nexus Global og nú tökum við þetta alla leið. Með samstarfinu fáum við aðgang að þekkingu, tilbúnum kerfum, þjálfunarefni, hugbúnaði o.fl. Í sameiningu höfum við á að skipa öflugu teymi sem getur tekið að sér stór og smá verkefni á sviði áreiðanleika búnaðar. Við teljum að þetta sé vannýtt auðlind í rekstri íslenskra fyrirtækja og því spennandi viðbót við það sem við hjá Capacent erum að gera í dag,“ segir Símon Þorleifsson, ráðgjafi hjá Capacent.
Andy Gager, framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í Nexus Global Business Solutions, Inc (Nexus Global) undirritaði samkomulagið fyrir hönd Nexus Global.
Höfuðstöðvar Nexus Global eru í Bandaríkjunum en fyrirtækið rekur einnig skrifstofur í Oman, Hollandi, Malasíu, Brasilíu, Nígeríu, Kanada og Sameinuðu arabísku furstadæmunum.  Nexus Global býður upp á heildstæðar lausnir í stjórnun á nýtingu eigna og búnaðar (Asset Performance Management) og þjónar viðskiptavinum í olíu- og gasiðnaði, margvíslegum framleiðsluiðnaði, lyfjaiðnaði, orkuvinnslu og efnaiðnaði.
„Okkar lausnir byggjast á samvinnu við viðskiptavini við bestun verkferla og stjórnkerfa. Í því augnamiði leiðum við þá í gegnum lærdómsferli og hegðunarbreytingar í samræmi við sýn og stefnu viðkomandi fyrirtækis. Niðurstaðan er klæðskerasniðnar lausnir sem bæta frammistöðu og hjálpa viðskiptavinum að sækja sér samkeppnisforskot og uppfylla á sama tíma allar reglur og gæðakröfur.  
„Nexus Global starfar með viðskiptavinum að innleiðingu stefnu sem hámarkar þann tíma sem búnaður er til reiðu, áreiðanleika hans og lágmarkar kostnað við viðhald og viðheldur virði hans“ segir Andy Gager.

Höfundur