lock search attention facebook home linkedin twittter

20 júl 2014

Umsagnir sem gera gagn

Ein vinsælasta aðferðin við val á nýjum starfsmönnum hér á landi er að kanna umsagnir hjá þeim sem þekkja til viðkomandi. Geta umsagnir haft veruleg áhrif þegar kemur að því að velja einn einstakling úr fjölmennum hópi umsækjenda?

Greinar

Þegar sótt er um starf eru miklar líkur á að umsækjandi verði beðinn um að gefa upp nöfn umsagnaraðila. Það er gott að hafa að minnsta kosti nöfn tveggja umsagnaraðila og ákjósanlegt þykir að leita umsagna hjá yfirmanni. Flestir yfirmenn taka almennt vel í slíka beiðni og vilja leggja sitt af mörkum til að góðir starfmenn geti náð áframhaldandi frama. Það ber þó að virða ef einhver vill ekki leyfa þér að gefa upp nafn sitt sem umsagnaraðila, hver svo sem ástæða þess er.

Stundum geta umsækjendur ekki gefið upp nafn núverandi yfirmanns sem umsagnaraðila því þeir vilja ekki láta vita af því að þeir séu að leita sér að nýju starfi.  Það þarf ekki að koma að sök þar sem í  slíkum tilvikum er mögulega hægt að leita til fyrrverandi yfirmanns. Aðrir sem koma til greina sem umsagnaraðilar eru bæði núverandi og fyrrverandi samstarfsmenn, viðskiptavinir og kennarar. Hafðu þó í huga að umsagnaraðilar þurfa að þekkja vel til þín og þinna starfa svo þeir geti svarað þeim spurningum sem hugsanlega eru lagðar fyrir ef haft er samband við þá. Oftast er hringt í umsagnaraðila og þá er gjarnan spurt um tengsl við umsækjandann, starfstitil hans, ábyrgðarsvið, styrkleika, samskipti, starfslok og hvort yfirmaður myndi ráða hann aftur í starf.

Ef þú ert í þeirri stöðu að leita eftir umsagnaraðilum getur verið gott að staldra við og íhuga hvernig þú tryggir að þeir veiti gagnlega umsögn. Góð byrjun er að láta umsagnaraðila vita hvernig starfi þú ert að leita að og gefa þeim eintak af ferilskránni þinni þar sem fram koma upplýsingar um menntun þína, starfsreynslu og ábyrgðarsvið.

Umsagnaraaðilum er yfirleitt ánægja að segja frá styrkleikum umsækjanda en verða stundum hikandi þegar þeir eru spurðir um það sem betur má fara. Möguleg ástæða fyrir því er að umsagnaraðilar vilja ekki standa í vegi fyrir að umsækjandi fái starfið sem hann ásælist. Hins vegar hamlar það gagnsemi umsagna, sem aðferð við val á milli umsækjenda, ef umsagnaraðilar gefa ekki upp „raunsæjar“ upplýsingar um umsækjendur. Vertu viðbúinn því að umsagnaraðili haldi ekki bara langa lofræðu um þig og þína hæfni. Mögulega flettir yfirmaður upp í frammistöðuskýrslu og rifjar upp hvaða árangri þú hefur náð í starfi og hvað betur hefði mátt fara hjá þér.

Þetta þarf ekki að koma sér illa fyrir umsækjanda. Þvert á móti er hægt að færa rök fyrir því að heiðarleg umsögn komi sér vel þegar upp er staðið. Í fyrsta lagi er vert að átta sig á að umsækjanda er enginn greiði gerður með því að vera ráðinn inn í starf sem hentar honum illa eða er ekki á hans styrkleikasviði. Sömuleiðis getur raunhæf umsögn reynst gagnlegri fyrir umsækjanda þar sem meira mark er mögulega tekið á henni en einhliða upptalningu á kostum umsækjanda.

Þegar öllu er á botninn hvolft er það frammistaða þín í starfi sem ræður úrslitum og því er það hagur þinn sem umsækjenda að frá henni sé greint á heiðarlegan hátt.

Jóna Björk Sigurjónsdóttir
ráðgjafi hjá Capacent Ráðningum

Höfundur