lock search attention facebook home linkedin twittter

10 jan 2014

Bakgrunnur íslenskra stjórn­enda – leiðin í stólinn

Þegar rennt er yfir lista yfir 300 stærstu fyrirtæki landsins vakna óhjákvæmilega upp spurningar um bakgrunn þeirra. Hvaða menntun ætli stjórnendur hafi, hverskonar reynslu búa þeir yfir og ekki síst hver var ferillinn í „stólinn“?

Greinar

Okkur þótti ofangreint áhugaverðar spurningar og svörin við þeim gætu gefið okkur vísbendingar um almennan bakgrunn og reynslu stjórnendanna.

Aðferðafræðin

Til að svara þessu völdum við 100 fyrirtæki úr lista Frjálsrar Verslunar 2012 – 50 stærstu og 50 „minnstu“ fyrirtækin á listanum. Þetta gerðum við til að geta séð hvort einhver áhugaverður munur væri á bakgrunni stjórnenda í litlum og stórum fyrirtækjum. Eða með öðrum orðum – Er bakgrunnur stjórnenda í stóru fyrirtæki annar en í þeim sem eru minni? Upplýsingar um stjónendurna voru oftast fengnar með símtali þar sem farið var yfir bakgrunn stjórnenda, nám og reynslu og við náðum í um 90 stjórnendur. Verkið var að mestu unnið í „jólahléi“ í desember 2013.

Til að fá aðeins ríkari sýn á efnið könnuðum við líka í gagnagrunni Capacent ráðninga, feril allra þeirra sem skráðu nýjasta/núverandi starf sem forstjóri, framkvæmdastjóri eða forstöðumaður síðustu 18 mánuðina. Það verður að hafa í huga að upplýsingar úr gagnagrunninum byggja á sjálfvöldu úrtaki, það er að þeir sem skrá sig í gagnagrunn Capacent eru að leita að starfi og það má þannig ekki alhæfa á þýðið allir stjórnendur á Íslandi. Það má hins vegar segja að upplýsingarnar gefi góða mynd af bakgrunni stjórnenda í atvinnuleit. Að sama skapi náðist ekki í allar upplýsingar um alla 100 stjórnendur af lista Frjálsrar Verslunar. Niðurstöður og umfjöllun verður því að túlka með fyrrgreinda fyrirvara í huga.

Niðurstöður

Menntun
Menntun er einn þeirra þátta sem fylgir stjórnendum. Í báðum úrtökunum okkar voru yfir 90% stjórnenda með háskólapróf. Allt frá Bachelor gráðu til Doktorsprófs. Alls gáfu stjórnendur í gagnagrunni okkar upp 154 tegundir menntunar. Mest áberandi var þó menntun sem með einum eða öðrum hætti tengdist viðskiptafræði eða rétt um 28%. Þetta þýðir að sjálfsögðu að yfir 70% stjórnenda höfðu annan bakgrunn s.s. sálfræði, lögfræði, markaðsfræði og ýmiskonar verkfræði var áberandi. Sennilega mest allt þekking sem nýtist stjórnendum ýmist beint eða sem grunnur að frekari þekkingaröflun í starfi.

Skólar
Það kom ekki á óvart að flestir stjórnendanna í gagnagrunni okkar höfðu útskrifast úr Háskóla Íslands (33%) enda bæði elsti og stærsti skólinn. Frá Háskólanum í Reykjavík komu 14% og aðrir íslenskir háskólar með um 10% af stjórnendunum. Næst stærsti háskólamenntaði hópurinn voru þeir sem höfðu útskrifast úr erlendum háskólum, eða 24% stjórnendanna. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar frá 1997 voru um 19% háskólanema við nám erlendis á milli 1997 og 2000 en hefur síðan þá fækkað í 14% á sama tíma og fjölgun hefur verið í háskólum landsins. Hvort hlutfall stjórnanda úr erlendum skólum mun einnig fara lækkandi á eftir að koma í ljós.

Reynsla
Líkt og með marga Íslendinga var reynsla stjórnenda á vinnumarkaði af ýmsum toga. Í samtölum við stjórnendur kom oft fram að ferlinum mætti skipta í vinnu með og fyrir námslok – og svo aftur eftir að námi líkur. Þegar við skoðuðum bakgrunn stjórnenda í gagnagrunni Capacent kom í ljós fjölbreytt reynsla af ýmsum störfum. Alls voru skráðir 210 ólíkir starfstitlar í bakgrunni stjórnenda, en áberandi hversu mörg störf fólu í sér einhverja stjórnun snemma á ferlinum.

Við skoðuðum gagnagrunn Capacent til að grafa ögn dýpra í það hvort munur væri á bakgrunni forstjóra og framkvæmdastjóra samanborið við bakgrunn einstaklinga sem annars vegar eru ekki í stjórnunarstöðu í dag og svo aftur þeirra sem ekki hafa verið í stjórnunarstöðu. Þar sem að sá grunnur er ekki sniðinn að því að gera rannsóknir þarf að túlka niðurstöður með varfærni og taka tilliti til þess hvernig gögnin eru fengin.

Þar sem að einstaklingar sem sækja um störf skrá ólíkan fjölda í grunninn (sumir mörg störf aðrir fá) ákváðum við að skoða aðeins þá sem hefðu að minnsta kosti skráð 4 störf og í mesta lagi 8. Til að koma í veg fyrir skekkju vegna reynsluleysis voru aðeins skoðaðir einstaklingar eldri en 35 ára.

Niðurstöður fyrir nokkra starfstitla má sjá í töflunni hér að neðan.

4-8 störf gefin upp,
35 ára eða eldri
N=790
Hlutfall stjórnunarstarfa í bakgrunni Meðalaldur
Forstjóri 67% 48,8
Rekstrarstjóri 66% 43,3
Forstöðumaður 64% 46
Framkvæmdastjóri 60% 45,9
Gæðastjóri 52% 44,2
Blaðamaður 25% 42,9
Aðalbókari 25% 49,3
Forritari 19% 41,8
Sérfræðingur 17% 40,4
Gjaldkeri 14% 45,7
Afgreiðslustörf 14% 41,5

 

 

Það gæti verið fróðlegt að bera reynslu íslenskra stjórnenda saman við reynslu og bakgrunn stjórnenda í helstu viðskiptalöndum okkar.

Framgangur
Margir velta því fyrir sér hvernig stjórnendur verða stjórnendur. Eins og kemur fram að ofan er reynsla stjórnenda af ýmsum toga en besta forspáin fyrir stjórnendastöðu er að vera stjórnandi, en 83% stjórnendanna í úrtaki okkar úr 300 stærstu, höfðu verið stjórnendur áður en þeir tóku við forstjóra eða framkvæmdastjórnartitlinum í sínu fyrirtæki. Hinir, eða 17% höfðu margskonar bakgrunn s.s. rafvirkjun, kennari, bókari, o.fl. Sambærileg niðurstaða kom úr gögnum úr gagnagrunni Capacent ráðninga. Það er, líklegasta starf fyrir stöðu framkvæmdastjóra, forstjóra eða forstöðumannsstarf var önnur stjórnunarstaða.

En stór og minni fyrirtæki?
Æðstu stjórnendur fyrirtækja áttu það sameiginlegt að hafa tekið við sínu fyrsta stjórnunarstarfi um þrítugt. Aðeins skildi á milli stjórnenda þegar kom að því hversu gamlir þeir tóku við núverandi starfi. Í stærri fyrirtækjunum tóku stjórnendur við taumunum um 44 ára aldurinn, en voru að jafnaði 37 ára í þeim minni. Á meðfylgjandi mynd sést þessi aldursdreifing ágætlega.

Það má leiða að því líkum að einstaklingar sem stjórna stærri fyrirtækjunum þurfi meiri og fjölbreyttari reynslu í starfið og því sé meðalaldurinn þar hærri en í þeim smærri fyrirtækjunum. Innan safnsins er þó mikil skörun og margir byrja bæði yngri og eldri í báðum hópunum.

Í gagnagrunni okkar var meðalaldur kvenna 42 ár og karla 45 ár.

Við könnuðum líka meðal stjórnendanna af lista Frjálsrar Verslunar hvort um hefði verið að ræða stöðuhækkun innanhúss eða hvort viðkomandi hefði verið ráðinn til fyrirtækisins utanfrá. Í ljós koma að nákvæmlega helmingur hafði verið ráðinn utanfrá og að stærð fyrirtækisins hafði ekki áhrif á það hvort stjórnandi kom innan eða utanfrá til starfa.

Kyn
Mikið hefur verið skrifað um hlutfall karla og kvenna í stjórnunarstöðum. Af þeim 100 fyrirtækjum sem við skoðuðum úr lista Frjálsrar Verslunar 2012 voru 9 konur meðal æðstu stjórnenda. Þegar við skoðuðum hlutfall kvenna, í æðstu stöðum, í gagnagrunni Capacent kom í ljós að þar voru konur 33% skráðra. Vonandi bendir það til þess að kynjahlutföll muni jafnast út með tímanum.

Niðurlag

Vafalaust skipti margt máli í ferli og fari stjórnenda en eftirfarandi þættir eru áberandi að lokinni yfirferð okkar.

  • Að vera með háskólagráðu. 93% stjórnenda eru með háskólagráðu, margir úr viðskiptafræði en margskonar menntun skilar einstaklingum í stjórnunarstarf.
  • komast snemma á ferlinum í einhverskonar stjórnunarstarf. 83% stjórnenda í æðstu stöðum höfðu verið í stjórnendastarfi áður og flestir komnir í það fyrir þrítugt.
  • að leita tækifæra bæði innan fyrirtækis og utan. Um helmingur æðstu stjórnenda voru starfandi innan fyrirtækisins, og um helmingur utan þess áður en þeir tóku við stólnum.

Greinin byggir á erindi sem haldið var fyrir Dokkufélaga í janúar 2014