lock search attention facebook home linkedin twittter

Er Ísland analog eða digital?

11. sept. 2018 kl. 15:00

Costco hvað!

Uppgjör Haga var í takt við væntingar Capacent á 1. ársfjórðungi rekstrarársins 2018/19. Tekjusamdráttur á 1. ársfjórðungi miðað sama ársfjórðung árið áður var 2,4%. Það dró því úr tekjusamdrætti en samdrátturinn var 5% á 4. ársfjórðungi árið á undan. Áhrif Costco á rekstur Haga virðist alltaf dragast saman en samdráttur í tekjum Haga milli ársfjórðunga var 12,5% þegar hann var mestur fyrst eftir opnun Costco. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 1.193 m.kr. á 1. ársfjórðungi rekstrarársins 2018/19 og dróst saman um 6,6% frá sama ársfjórðungi árið áður er EBITDA var 1.277 m.kr. Ástæða þess að samdráttur í EBITDA er meiri en samdráttur í tekjum má rekja til þess að framlegð dróst örlítið saman og lækkaði úr 24,9% niður í 24,7%. Auk þess sem að launakostnaður jókst um 0,5% á sama tíma og samdráttur var í tekjum.

Aukin samkeppni leiðir til aukinnar skilvirkni í rekstri

Þótt áhrif Costco á rekstur Haga hafa verið minni en margir óttuðust eru áhrif aukinnar samkeppni á smásölumarkaði skýr í uppgjörinu. Auk samdráttar í tekjum og framlegð hefur viðskiptavinum fyrirtækisins fækkað um 1,5%. Vísitala innkaupa Haga í erlendum myntum hækkaði um 3,2% samanborið við sama ársfjórðung árið á undan. Hins vegar hækkaði vísitala neysluverðs án húsnæðis aðeins um 0,1% á sama tíma. Tvær ástæður geta legið þar að baki. Framlegð smásala sé almennt að dragast saman eða að gengisveiking síðastliðna mánaða eigi enn þá eftir að koma fram í verðlagi. Framlegð Haga dróst saman um 3% á sama tíma og tekjur drógust saman um 2,4% og því virðast Hagar hafa tekið á sig eitthvað af gengisveikingunni. Í kjölfar þess að samkeppni á smásölumarkaði harðnaði fóru Hagar í endurskipulagningarvinnu, lokuðu óhagkvæmum einingum og drógu úr verslunarrými en verslunarrými Haga hefur dregist saman um 26 þúsund fermetra. Sala á hvern fermetra verslunarhúsnæðis Haga hefur aukist við þessar breytingar. Innkoma Costco á smásölumarkað virðist því hafa aukið skilvirkni í verslunarrekstri Haga.

Nær óbreytt verðmat

Rekstraráætlun Capacent er óbreytt frá síðasta verðmati. Sjóðsstreymi Haga er sterkt og batnaði sjóðsstaða félagsins sem hækkar verðmatið um 0,5%. Fjármagnskostnaður (WACC) breytist hverfandi frá síðasta verðmati og er 7,4% á raungrunni. Verðmat Capacent á Högum hækkar úr 62,0 ma.kr. frá síðasta verðmati í 62,3 ma.kr. Verðmatsgengi Haga hækkar því úr 56,2 í 56,5.

Capacent gerir því ráð fyrir að EBITDA verði 4,8 ma.kr. á rekstrarárinu 2018/19 samanborið við 4,1 ma.kr. árið 2017/18 og að EBIT verði 3,8 ma.kr. samanborið við 3,0 ma.kr. árið 2017/18.

Höldum okkar striki

Verðmatsgengi Capacent var í kringum 60 eða um 10-15% yfir gengi á markaði fram að innkomu Costco. Í kjölfar þess að Costco kom á íslenskan smásölumarkað lækkaði verðmatsgengi Capacent um tæplega 20%. Á sama tíma lækkaði markaðsgengi um 40%. Munurinn á verðmatsgengi Capacent og markaðsgengi náði því um 35% þegar mest var. Að mati Capacent var markaðurinn að ofmeta áhrif Costco á rekstur Haga. Það virðist þó ekki aðeins hafa verið markaðurinn sem ofmat áhrif Costco á rekstur Haga en það virðist Capacent einnig hafa gert. Áður en Costco kom á íslenskan smásölumarkað var verðmat Capacent á Högum um 69 ma.kr. Verðmat Capacent nú, þegar áhrif aukinnar samkeppni á rekstur Haga eru orðin ljós, er rúmlega 10% lægra eða tæpir 62,3 ma.kr.