lock search attention facebook home linkedin twittter

Dokku­fundur

08. sept. 2016 kl. 08:15

Frammistöðusamtöl og frammistöðumat er stöðugt umræðuefni stjórnenda og ekki síst mannauðsfólks. Margt hefur verið prófað og sitt sýnist hverjum í þessum efnum. Þar sem við í Dokkunni erum stöðugt á höttunum eftir faglegri umræðu og efnistökum á þessu sviði sem öðrum þá urðum við forvitin þegar við fréttum að sérfræðingar Capacent hefðu sest yfir viðfangsefnið og komist að niðurstöðu. Við leituðum því til reynsluboltans Gunnar Haugen um að segja okkur allt um þeirra sýn á frammistöðusamtölin og matið.

Eru frammistöðusamtöl að skila árangri?

Það var nýlega fjallað um það í fréttum að rannsóknir hefðu sýnt að frammistöðusamtöl skiluðu ekki árangri. Mikið var, segja þeir sem til þekkja, að fjölmiðlar fjölluðu um það sem margir vissu og enn fleiri grunaði. Að ekki allar aðferðir sem notuð eru í samtölum um frammistöðu skila breytingum á hegðun eða frammistöðu. Það skiptir máli hvernig hlutirnir eru gerðir.

Er rangt eða rétt að tala um frammistöðu?

Það  er í sjálfu sér ekkert rangt eða óæskilegt að tala um frammistöðu. Það er meira að segja frekar jákvætt almennt. Því til stuðnings má nefna að nokkuð sterk tengsl eru á milli t.d. heildaránægju starfsmanns og frammistöðusamtals. Það sem má á hinn bóginn ekki gera er að byggja umræðuna um frammistöðu á huglægu mati, nota ekki góða frammistöðumælikvarða, jafnvel mælikvarða sem hegðun starfsmannsins hefur ekki áhrif á, ræða frammistöðu einungis einu sinni á ári, setja engin skýr markmið og fylgja svo ekki eftir því sem rætt var um.

Hvað eru fyrirmyndirnar að gera?

Fyrirtæki á borð við Adobe, Microsoft, Accenture, Deloitte, IBM og fleiri hafa hætt hinu hefðbundna árlega starfsmannasamtali og tekið í staðinn upp aðferðir sem er vitað að hafa jákvæð áhrif á bæði frammistöðu og ánægju í  starfi. Það kemur ekki á óvart að hjá þessum fyrirtækjum er nú rætt allt að vikulega við hvern starfsmann og þau styðjast við skýrari mælingar, markmiðasetningu og tryggja eftirfylgni með þeim.

Hvað er til ráða?

Það væri til mikilla bóta að taka upp vandaða frammistöðustjórnun í sem flestum íslenskum fyrirtækjum sem allra fyrst. Vel útfærð frammistöðustjórnun skilar sér hratt í auknum árangri starfsfólks og fyrirtækja og hefur jákvæð áhrif á framleiðni rekstursins.

Það er því fagnaðarefni að búið sé að draga fram með skýrum hætti hvað við eigum mikið eftir ónýtt í mannauðnum okkar. Nú er bara að laða það besta fram í öllum með þekktum og sannreyndum aðferðum. Þetta er ekki flókið.

Fundurinn verður haldinn í húsakynnum Capacent, Ármúla 13 frá kl. 08:15-09:45. Boðið verður upp á léttar veitingar.