lock search attention facebook home linkedin twittter

Grandi, uppfært verðmat í kjölfar sex mánaða uppgjörs

Meðfylgjandi er uppfært verðmat á Granda í kjölfar sex mánaða uppgjörs

Í bláum skugga

Verðmat Capacent hljóðar upp á 311 milljónir evra og lækkar um 17% frá síðasta verðmati. Verðmatsgengi í íslenskum krónum lækkar þó aðeins um 10% því gengi evru hefur styrkst um 7% gagnvart krónu frá síðasta verðmati. Verðmatsgengi Capacent á Granda er nú 21,8 en var 24,2 eftir uppgjör fyrsta ársfjórðungs. Verðmat Capacent er 28% undir gengi á markaði.

Hallað hefur á ógæfuhliðina

Þrátt fyrir að hratt hafi hallað á ógæfuhlið Granda síðastliðið ár hefur gengi Granda hækkað um 5% síðastliðið ár. Uppgjör fyrsta árshelmings gefur ekki sérstaklega mikla ástæðu til bjartsýni. Rekstrarhagnaður (EBITDA) á fyrsta árshelmingi ársins 2017 nam 13,9 milljónum evra samanborið við 21 milljón á sama tíma fyrir ári. Að hluta útskýrist lakari afkoma af sjómannaverkfalli sem stóð til 18. febrúar. Afkoma annars ársfjórðungs 2017 var þó umtalsvert lakari en á sama tíma fyrir ári og var EBITDA Granda á öðrum ársfjórðungi 8,7 milljónir evra samanborið við 9,9 milljónir evra á sama tíma árið áður. Síðastliðna 12 mánuði hefur EBITDA Granda numið 32,1 milljónum evra.

Munur á markaðsgengi og verðmatsgengi eykst stöðugt

Fyrsta verðmat Capacent á Granda var sumarið 2016 og var verðmatsgengið 29,9 og verðmatið 402 milljónir evra. Verðmat Capacent nú er 311 milljónir evra og hefur lækkað um 23% frá fyrsta verðmati. Lægra verðmat endurspeglar sífellt versnandi rekstrarhorfur. Fyrsta verðmat Capacent sumarið 2016 endurspeglaði rekstrarhorfur- og rekstarskilyrði á þeim tímapunkti en raungengi krónunnar var um 10% veikara en nú. Verðmatið hefur verið endurskoðað nokkrum sinnum og þá til lækkunar en sigið hefur á ógæfuhliðina. Verðmatsgengi fyrstu verðmata Capacent lágu við markaðsgengi en þrátt fyrir sífellt lakari afkomu og versnandi rekstrarhorfur hefur bæði markaðsgengi og markaðsvirði Granda hækkað. Markaðsvirði Granda nú er um 434 milljónir evra eða 55,6 milljarðar króna.

Hvers virði eru norðurljósin?

Ljóst er að umtalsverður munur er á verðmati Capacent og markaðsvirði. Verðmat Capacent út frá sjóðsstreymi er 40 ma.kr. en markaðsvirðið er 55 ma.kr. Önnur leið til að reikna út virði Granda er að reikna upplausnarvirði félagsins en þar er verðmætasta eignin kvótinn. Markaðsverð á kvóta er ákveðið jaðarverð því kaupendur eru oftast að kaupa kvóta til að ná hámarksframlegð út úr veiðum og vinnslu. Þannig endurspeglar kvótaverð oftast ekki þann fastakostnað sem fylgir veiðum og vinnslu þar sem kaupendur hafa þegar lagt út í þá fjárfestingu. Einnig er um að ræða fremur lítil viðskipti sé tekið mið af kvótaeign Granda sem nemur um 10% heildarkvótans.

Upplýsingar eru takmarkaðar um kvótaverð en hins vegar liggja fyrir nokkuð góðar upplýsingar um leiguverð kvóta en auk leiguverðs studdist Capacent við verð frá kvótamiðlurum. Niðurstaða Capacent út frá leiguverði kvóta og upplýsingum frá kvótamiðlurum að virði kvóta Granda sé um 40 milljarðar króna þegar tekið hefur verið tillit til 20% afsláttar. Hér hefur verið tekið tillit til magnafsláttar og til þess að væntanlegur kaupendur á svo miklu magni þurfa væntanlega að bæta við framleiðslueiningum. Virði kvóta samkvæmt þessari nálgun er því sú sama og sjóðstreymisverðmat Capacent á Granda sem er rökrétt því verðmæti kvóta ætti að vera í takt við framtíðar arðsemi undirliggjandi rekstrar þess sem nýtir kvótann. Ljóst er að virði kvóta væri ekki mikið ef tap væri á fiskvinnslu og fiskveiðum. Þannig er kvóti líkur viðskiptavild að því leiti að verðmæti hans sveiflast eftir arðsemi rekstrarins.

Samkvæmt efnahagsreikningi Granda var skráð virði rekstrarfjármuna, eignarhluta í félögum, annarra fjárfestinga og handbærs fjár og brigða 284 milljónir evra. Vaxtaberandi skuldir og tekjuskattsskuldbindingar námu 225 milljónum evra. Ef við gefum okkur að eignir Granda séu á sannvirði, næmi verðmæti annarra eigna en kvóta 60 milljónum evra eða 8 milljörðum króna. Upplausnarvirði væri því gróflega áætlað um 48 milljarðar króna ef miðað er við að virði kvóta sé 40 ma.kr. Upplausnarvirðið væri því hærra en sjóðsstreymisverðmat en lægra en markaðsvirði. Hafa verður þó í huga að hér er um gróft mat að ræða sem byggir á ófullkomnum upplýsingum um kvótaverð.

Umtalsverð áhætta felst í fjárfestingu í sjávarútvegsfyrirtækjum

Mikil áhætta felst í fjárfestingu í sjávarútvegi. Hvað gerir krónan á næstu mánuðum og árum? Mun nást sátt um stjórn fiskveiða? Hvaða áhrif mun minna efnahagslegt mikilvægi greinarinnar hafa á rekstrarstöðu hennar? Hvaða áhrif mun hlýnun jarðar og mengun heimshafa hafa á íslenskan sjávarútveg?

Grandi á tvöföldu verði?

Samanburður á Granda við erlend félög er nokkuð erfiður. Mörg þeirra samanburðarfélaga sem notast er við eru fyrst og fremst í fiskeldi, fiskvinnslu og sölu, en áhætta í rekstri slíkra félaga er minni. Sum fyrirtæki eru þó betri til samanburðar líkt og Austevoll í Noregi, en einnig má horfa til Sanford í Nýja Sjálandi og Nippon Suisan í Japan. Út frá verðmatskennitölum er Grandi mjög dýr og eru verðmatskennitölur um tvöfalt hærri en hjá samanburðarfélögum. Vissulega skekkir sjómannaverkfallið myndina en skekkir hún myndina svona mikið? Þegar fyrsta verðmat Capacent á Granda var unnið voru verðkennitölur félagsins á pari við erlend sjávarútvegsfyrirtæki

Sjá má verðmat í viðhengi

Skoða greiningu →