lock search attention facebook home linkedin twittter

Ríkisins að eilífu, amen…

Meðfylgjandi er skuldabréfayfirlit vikunnar

Gengi óverðtryggðra bréfa hélt áfram að gefa eftir í síðustu viku: Gengi óverðtryggðra skuldabréfa hélt áfram að gefa lítillega eftir í síðustu viku. Að meðaltali lækkaði gengi þeirra um 0,1% í síðustu viku. Gengi verðtryggðra bréfa hækkaði hins vegar örlítið eða um 0,03% að meðaltali.

Verðtryggði ferillinn verður alltaf flatari: Munur í ávöxtunarkröfu milli stysta verðtryggða skuldabréfsins HFF24 og lengri bréfanna er nú orðinn rúmlega 30 punktar. Það er ekki svo langt síðan að munurinn var um 70 punktar.  Að mati Capacent eru kaup í HFF24 enn hagstæð í samanburði við önnur verðtryggð skuldabréf þótt ávinningurinn sé ekki jafn mikill og áður.

Fjárlagafrumvarp í takti við „væntingar greiningardeildar“: Fátt nýtt kom fram í fjárlagafrumvarpinu. Eldsneytisgjald hækkar umtalsvert um áramótin og þá sérstaklega á díselolíu. Hærra eldsneytisgjald mun hafa tæplega 0,11% áhrif á vnv til hækkunar. Á móti kemur að í upphafi árs 2019 verður virðisaukaskattur lækkaður úr 24% í 22,5%. Erfitt er að segja hver áhrifin verða á verðlag en fjármálaráðuneytið metur að áhrif skattlækkunarinnar á vnv verði 0,5% til lækkunar.

Aukin útgáfa ríkisbréfa og ríkisvíxla árið 2018: Ef litið er til skulda ríkissjóðs er gert ráð fyrir að þær dragist saman um 35,9 ma.kr. árið 2018. Skuldabréf (RIKH18) sem voru lögð fram sem eiginfjárframlag í hinum nýstofnuðu bönkum eftir hrun verða að fullu greidd upp eða sem nemur 71,7 ma.kr. Ríkissjóður hefur verið að greiða upp þennan skuldabréfaflokk síðastliðin tvö ár og er uppgreiðslan í samræmi við það sem ríkissjóður hefur áður gefið út um niðurgreiðslu skulda. Á móti kemur að útgáfa ríkisbréfa, ríkisvíxla og verðtryggðra skuldabréfa mun aukast um 45,4 ma.kr. árið 2018. Aðrar skuldir ríkissjóðs munu lækka um 9,6 ma.kr.  Skuldir ríkissjóðs m.v. skuldareglu í lögum um opinber fjármál munu lækka um 45,8 ma.kr. og verða 26,7% af VLF í lok árs 2018.

Ríkisins að eilífu, amen: Annað sem kom fram í fjárlagafrumvarpinu var að ekki er gert ráð fyrir sölu bankanna á árinu 2018. Í byrjun árs 2019 verða komin 10 ár frá því að ríkið tók aftur yfir bankakerfið. Árið 2019 hefur tímabil ríkisrekins bankakerfis á Íslandi staðið yfir í meira og minna í 90 ár, ef frá er skilið tímabilið 1998 til 2008.

Skoða greiningu →