lock search attention facebook home linkedin twittter

Skipu­lagt undan­hald

Meðfylgjandi er skuldabréfayfirlit vikunnar

Skipulagt undanhald: Gengi skuldabréfa hélt áfram að gefa lítillega eftir í síðustu viku. Gengi óverðtryggðra bréfa lækkaði lítillega að meðaltali eða um 0,04%. Gengi verðtryggðra bréfa lækkaði um 0,07% að meðaltali í vikunni. Þessi þróun átti sér stað þrátt fyrir að síðasta verðbólgumæling gaf fjárfestum ástæðu til frekari bjartsýni.

Verðbólguáhættan lítil til lengri tíma: Óverðtryggði ferillinn er loks orðinn ágætlega upphallandi. Fyrir mánuði síðan var hann hins vegar nær flatur sem var fremur undarleg lögun í ljósi þess að blikur voru á lofti. Útlit var fyrir vaxandi verðbólgu og fremur mikil óvissa um gengisþróun krónunnar. Lögun ferilsins er nú fremur „eðlileg“ að mati Capacent. Á sama tíma hafa fjárfestar farið í skammtíma verðtryggð skuldabréf. Sú einkennilega staða er þó enn á skuldabréfamarkaði að verðbólguálag til 4 ára er enn umtalsvert lægra en verðbólguálag til 8 ára. Ástæða þess að Capacent þykir þetta einkennilegt er sú að töluvert meiri líkur eru á að verðbólgan verði að meðaltali yfir 2,5% á næstu 4 árum en yfir 3% að meðaltali á næstu 8 árum.

Verðbólguáhættan sjaldan verið lægri: Capacent hefur í gegnum tíðina tekið saman mælingu á verðbólguáhættunni. Oftast er sett samasemmerki milli verðbólguálags og verðbólguvæntinga. Það er ekki fyllilega rétt en verðbólguálag samanstendur verðbólguvæntingum og verðbólguáhættu (risk premium). Töluverð óvissa fylgir framþróun verðbólgu og eru flestir fjárfestar tilbúnir að greiða nokkuð umfram verð fyrir það öryggi sem fylgir verðtryggingunni og er þetta verð gjarnan kallað verðbólguáhætta eða risk premium. Verðbólguáhættan er með lægsta móti nú. Ástæða þess liggur í að verðbólguálag hefur hækkað hratt að undanförnu en staðalfrávik verðbólgunnar hefur lækkað á sama tíma. Verðbólgan er nú 1,7% og staðalfrávik verðbólgunnar síðastliðin 5 ár hefur verið tæplega 1,1%. Út frá gefnum forsendum er frekar ólíklegt að verðbólgan verði að meðaltali yfir 3% til næstu 8 eða 9 ára. Hins vegar eru töluverðar líkur á að verðbólgan verði að meðaltali yfir 2,6% til næstu 5 ára. Af þeim sökum er nokkuð stór hluti verðbólguálagsins til 5 ára verðbólguáhætta eða um 35% en lítil hluti verðbólguálags til 8 og 9 ára eða um 10%.

Mat á verðbólguáhættunni gefur því til kynna að ávöxtunarkrafa skammtíma verðtryggðra skuldabréfa sé enn allt of lág.

Skoða greiningu →