lock search attention facebook home linkedin twittter

Jafn­miklar líkur á vaxta­lækkun og að Ísland komist upp úr forkeppni Júró­visíon

Meðfylgjandi er skuldabréfayfirlit vikunnar

Jafnmiklar líkur á vaxtalækkun og að Ísland komist upp úr forkeppni Júróvisíon: Capacent telur að líkur á vaxtalækkun hafi dvínað á síðustu vikum. Fyrir það fyrsta hefur hækkunarhraði fasteignaverðs aukist mikið og fréttir af fateignamarkaði benda til ofhitnunar. Tölur Hagstofunar um atvinnuleysi sýna að atvinnuleysi er í sögulegu lágmarki. Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi er nú 1,6% og hefur aðeins einu sinni verið lægra, en það var í febrúar 2007 er það var 1,5%. Í fljótu bragði myndu flestir hagfræðingar telja vaxtahækkun vera eðlileg viðbrögð í slíku ástandi.

Dregur vaxtalækkun úr styrkingu krónunnar? Styrking krónu stafar fyrst og fremst af afgangi af viðskiptajöfnuði og sterkri stöðu þjóðarbúsins. Styrking krónunnar á því ekki rætur sínar að rekja til erlendrar lántöku og stöðutöku með krónunni líkt og fyrir hrun. Þannig hefur lækkun vaxta takmörkuð áhrif til að draga úr innstreymi fjármagns en stöðutaka í íslensku krónunni er afskaplega óspennandi kostur fyrir erlenda fjárfesta vegna bindiskyldu á íslenska vexti. Vaxtalækkun er frekar líkleg til að hafa jákvæð áhrif á hlutabréfamarkað og ýta undir hækkanir á hlutabréfaverði og ásókn í íslensk hlutbréf. Alls er óvíst að lækkun vaxta dragi úr styrkingu krónu eða leiði til veikingar hennar. Hátt vaxtastig er ekki aðalorsök sterkrar krónu og því erfitt að sjá rökin fyrir því að vaxtalækkun ætti að hafa svo mikil áhrif á gengi krónunnar sem margir vonast eftir.

Á móti kemur að trúverðugleiki peningastefnunnar hefur aukist sem hefur berlega komið fram í lágum verðbólguvæntingum. Einnig ætti jákvæður viðskiptajöfnuður, jákvæð erlend eignastaða og meiri þjóðhagslegur sparnaður að leiða til lægra náttúrlegs vaxtastigs. Þótt Seðlabankinn telji að náttúrulegt raunvaxtastig hafi lækkað er alls óvíst að bankinn telji skynsamlegt að lækka vexti nú.

Capacent er hvorki sérlega bjartsýnt á vaxtalækkun né að Ísland komist upp úr forkeppni Júróvisíon, jafnvel þótt slíkar skoðanir stappi nærri landráðum.

Skoða greiningu →