lock search attention facebook home linkedin twittter

Skulda­bréfa­mark­aður trumpast

Meðfylgjandi er skuldabréfayfirlit vikunnar

Skuldabréfamarkaður trumpast: Ávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði hækkaði nokkuð fyrri hluta vikunnar í kjölfar kosningasigurs Trump. Skuldabréfamarkaður jafnaði sig undir lok vikunnar er væntingar jukust um mögulega stýrivaxtalækkun. Hækkun ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði olli nokkurri undrun hjá Capacent en töluvert meiri líkur eru á Seðlabanki Íslands skipti sér af fjárfestingum erlendra aðila á Íslandi en að Donald Trump fari að skipta sér að fjárfestingum Bandaríkjamanna á Íslandi. Í lok vikunnar var ávöxtunarkrafa óverðtryggðra bréfa lítillega lægri en í byrjun vikunnar. Gengi ríkisbréfa hækkaði að meðaltali um 0,3% í vikunni. Gengi verðtryggðra bréfa var óbreytt enn eina vikuna. Gengi óverðtryggðra skuldabréfa hækkaði lítillega í viðskiptum mánudagsins.

Bestu kaupin í HFF24 og HFF44?: Framvirki verðtryggði ferillinn hefur fengið litla athygli að undanförnu en sjá má á mynd 3 að HFF34 er hlutfallslega orðið dýrt á meðal verðtryggðra bréfa. Ávöxtunarkrafa HFF24 er 3,19% og verður að teljast hagstæð raunávöxtunarkrafa. Hins vegar er útlit fyrir lága verðbólgu næstu mánuði og verðhjöðnun nú í nóvember.

Akademískt fiskabúr Gósentíð hefur verið hjá spámönnum síðustu daga enda von á stýrivaxtaákvörðun á miðvikudaginn. Miðað við þróun ávöxtunarkröfunnar virðast markaðsaðilar nokkuð bjartsýnir um að Seðlabankinn sjái ljósið og lækki vexti. Seðlabankinn verður þó oft harðari í afstöðu sinni er varðar stýrivexti er þrýstingur um lækkun er mikill. Hins vegar eru rökin sterk fyrir stýrivaxtalækkun. Verðhjöðnun er á Íslandi ef horft er fram hjá hækkun fasteignaverðs en víða erlendis er fasteignaverð ekki hluti af verðbólgumælingu. Hækkun fasteignaverðs síðustu ár á sér rætur í skorti á húsnæði og leiðréttingu á fasteignaverði í kjölfar efnahagshruns. Hækkun eignaverðs virðist ekki eiga sér djúpar rætur í útlánaþenslu. Sú spurning sem brennur því á mönnum er hvort hagvaxtarhorfur hér séu svo miklu betri að þær réttlæti um 5% stýrivaxtamun við nágrannalönd okkar? Vextir eru grunnforsenda í verðlagningu flestra eignamarkaða. Hátt vaxtastig á Íslandi gerir innlendan fasteignamarkað og hlutabréfamarkað aðlaðandi. Það skilar því takmörkuðum ávinningi að setja höft á viðskipti með vexti. Tímar fiskabúrshagkerfisins eru senn liðnir og þarf Seðlabankinn að taka tillit vaxtamunar og almenns vaxtastigs í nágrannalöndum okkar.

Elskar hún mig, elskar hún mig ekki: Að mati Capacent eru mestar líkar á að Seðlabankinn haldi stýrivöxtum óbreyttum en telur þó líkur á stýrivaxtalækkun ágætar.

Skoða greiningu →