lock search attention facebook home linkedin twittter

Dapurt gengi á verð­bréfa­markaði eins og hjá hand­boltalands­liðinu

Fremur dapurt gengi hefur verið á skulda­bréfa­markaði undan­farið líkt og á verð­bréfa­makaði í heild.

Þó hefur verið að birta örlítið til síðustu daga og voru umtals­verðar hækk­anir á skulda­bréfa­markaði á fimmtu­daginn. Gengi óverð­tryggðra ríkis­bréfa hefur lækkað um 0,3% að meðal­tali síðast­liðna viku. Gengi verð­tryggðra bréfa er að meðal­tali 0,5% lægra en fyrir viku síðan.  Fréttir sem hafa borist undan­farna viku ættu flestar að hafa jákvæð áhrif á skulda­bréfa­markað og innlendan verð­bréfa­markað.  Fyrir það fyrsta má nefna hækkun láns­hæf­is­mats Standard & Poor‘s á lang­tíma­skuld­bind­ingum ríkis­sjóðs úr BBB í BBB+. Einnig breyttum horfum úr óbreyttum í jákvæðar fyrir Arion og Íslands­banka frá sama fyrir­tæki. Fjár­mögnun ríkisins, bank­anna og þ.a.l. innlendra fyrir­tækja virðist því vera að vænkast.  Verð­bólgan hefur haldist viðráð­anleg síðustu mánuði og líkur á vaxta­hækkun því nokkuð minni en í haust.

Skamm­tíma verð­tryggð bréf góð lang­tíma fjár­festing

Fram­virki verð­tryggði vaxta­fer­ilinn er enn nokkuð skarpt niður­hallandi þrátt fyrir umtals­verða lækkun ávöxt­un­ar­kröfu skamm­tíma verð­tryggðra skulda­bréfa á fimmtu­daginn.  Skamm­tíma verð­tryggð skulda­bréf eru því mest aðlað­andi fyrir fjár­festa nú.

Íslenskur hluta­bréfa­mark­aður er jafn alþjóð­legur og utan­rík­is­stefna Norður-Kóreu

Þegar að mark­aðs­að­ilar hafa áttað sig á að samband íslensks hluta­bréfa­mark­aðar við umheiminn er líkt og samband hans við Norður Kóreu ætti að draga úr hinni alþjóð­legu niður­sveiflu á íslenskum hluta­bréfa­markaði.  Áhrif lækk­andi hluta­bréfa­verðs erlendis eru lítil á innlendan markað; i) Innlendir fjár­festar hafa ekki getað fjár­fest erlendis í rúmlega 7 ár, ii)  Eign erlendra aðila í innlendum hluta­fé­lögum er hlut­falls­lega lág iii) Skuld­sett verð­bréfa­kaup eru lítil sem engin á Íslandi, iv) Efna­hagsleg niður­sveifla í Asíu hefur helst áhrif á afkomu Marels og Össurar. Minni sala raftækja í Asíu ætti ekki að hafa áhrif á innlenda smásölu­verslun, fast­eigna­félög eða trygg­ing­ar­félög. Frekar ætti lækk­andi olíu­verð að auka kaup­mátt, lækka flutn­ings­kostnað aðfanga og gera ferðir til Drauma­landsins ódýrari.

Skoða greiningu →