lock search attention facebook home linkedin twittter

Verð­bólguspá mars

Meðfylgjandi er mánarleg verðbólguspá

Hvar er verðbólgan? Væntar hækkanir vegna útsöluloka létu á sér standa við síðustu mælingu verðbólgunnar. Verðbólguspá Capacent var jafn vitlaus og annarra í febrúar síðastliðnum. Capacent gerir ráð fyrir að vænt hækkun á verði fatnaðar sem kom ekki fram í síðasta mánuði komi fram nú. Verðbólguspá Capacent gerir ráð fyrir að vísitala neysluverðs (vnv) hækki um 0,68% í mars. Verðbólgan á ársgrunni mun því hækka úr 3,0% í 3,1%.

Mikil hækkun á fasteignaverði fyrir ári:. Í mars fyrir ári síðan hækkaði fasteignaverð um 1,4% sem hafði 0,3% áhrif á vnv. Capacent gerir ekki ráð fyrir viðlíka hækkun nú. Velta á fasteignamarkaði í febrúar bendir til að ástand markaðarins sé svipað og verið hefur síðustu mánuði. Capacent gerir ráð fyrir um 0,3% hækkun fasteignaverðs sem hefur 0,06% áhrif á vnv til hækkunar. Samtals gerir Capacent ráð fyrir að fasteignaliður vnv leggi 0,08% til hækkunar vnv í mars.

Eldsneytisverð tekur kipp: Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hækkað um 6% frá því í byrjun febrúar. Eldsneytisverð hér heima hefur hækkað um 2,2% samkvæmt mælingum Capacent. Hærra eldsneytisverð hefur 0,07% áhrif á vnv til hækkunar.

Gengi stöðugt: Gengi krónu hefur verið fremur stöðugt síðastliðnar vikur eftir nokkra gengisstyrkingu í byrjun árs. Gengisstyrkingin kom fram í matvælaverði í febrúar af meiri krafti en Capacent reiknaði með. Capacent gerir ráð fyrir örlítilli hækkun á matvælaverði sem hefur 0,01% áhrif á vnv til hækkunar.

Verð fatnaðar hækkar: Fatakaupmenn verða seint skaðir um að hafa kynt undir verðbólguna síðustu mánuði en verð fatnaðar í febrúar var 3,5% lægra en árið áður. Samkvæmt mælingu Hagstofunnar hækkaði verð fatnaðar 1,8% í febrúar og gerir Capacent ráð fyrir tæplega 9% hækkun á verði fatnaðar nú í mars sem hefur 0,28% áhrif á vnv til hækkunar. Við útsölulok 2018 hækkaði verð fatnaðar um tæplega 9,5% og gerir Capacent ráð fyrir að verð fatnaðar hækki um tæplega 11% við útsölulok nú. Gengisveiking kemur seint fram í verði fatnaðar og gerir Capacent ráð fyrir að hún komi að hluta fram nú.

Samdráttur í bílasölu: Samdráttur hefur verið í sölu bifreiða frá sama tíma í fyrra. Gengisveiking kom fljótt fram í verði bifreiða og hefur samdrátturinn í sölunni ekki látið á sér standa. Capacent gerir ráð fyrir að bílasalar haldi frekar að sér höndum nú við hækkun bifreiðaverðs og gerir ráð fyrir 0,5% hækkun. Samkvæmt mati Capacent mun hækkun bifreiða, varahluta og bílaviðgerða hafa 0,06% áhrif á vnv til hækkunar. Húsgögn, heimilistæki og önnur raftæki hækkuðu heldur minna en Capacent gerði ráð fyrir í febrúar. Capacent gerir ráð fyrir að framangreindir liðir leggi 0,08% til hækkunar vnv nú.

Ekki mikil merki um mikla hækkun flugfargjalda Samkvæmt könnun Capacent hækkuðu flugfargjöld lítillega í mars eða um 4% sem hefur 0,06% áhrif á vnv.

Skoða greiningu →